145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrri árin 2015–2018.

Það er mikið fagnaðarefni að við skulum loksins sjá fyrir endann á því að geta samþykkt fjögurra ára samgönguáætlunina. Því miður hefur það ekki tekist undanfarin ár og hefur lítið verið til grundvallar þeim samgönguframkvæmdum sem þó hafa farið af stað frá hruni nema fjárlög hvers árs.

Við fjölluðum mjög ítarlega um málið og fengum á okkar fund í nefndinni í rauninni alla þá aðila sem annaðhvort höfðu sent inn umsögn eða óskuðu eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar til þess að reka erindi sín og vinna þeim fylgis. Þetta eru gríðarlega margir aðilar og það var haldinn fjöldi funda til að fara eins vel ofan í grunninn á þessu máli og mögulegt er. Það væri of langt mál að rekja þá alla hér og nú en ég vísa í nefndarálit samgöngunefndar því til stuðnings.

Örstutt um þær reglur sem gilda um samgönguáætlun. Nú er í gildi ályktun Alþingis nr. 48/140 frá 19. júní 2012 við samgönguáætlun fyrir árið 2011–2022. Sama dag var með ályktun Alþingis samþykkt fjögurra ára áætlun fyrir árin 2011–2014. Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 var lögð fram á Alþingi á 141. löggjafarþingi en var ekki rædd. Hún var aftur lögð fram á 143. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun var enn lögð fram á 144. löggjafarþingi og var hún þá afgreidd frá umhverfis- og samgöngunefnd en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Þetta er sú afgreiðsla sem fór fram fyrir um ári síðan og þó hún hafi ekki fengið afgreiðslu þá tel ég að það hafi verið mjög mikilvægt að nefndin hafi klárað vinnu sína. Þetta var í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili sem nefndin hafði tíma, þótt rúmur væri, til þess að kalla aðila á fundi nefndarinnar og fara yfir. Sú ályktun sem var samþykkt út úr nefnd, þótt hún hafi ekki verið afgreidd, var svo lögð til grundvallar fyrir fjárlög næsta árs og mörg þau verkefni sem var bent á að þurftu fjármagn og þurfti að komast að fengu brautargengi í fjárlögum þessa árs. Ég nefni sem dæmi tillögur nefndarinnar um að setja fjármagn í flugvöllinn á Neskaupstað, hann hafði ekki fengið fjármagn, það var samkomulag um að það yrði gert með mótframlagi frá sveitarstjórn. Fjárlaganefnd staðfesti það og innanríkisráðherra kláraði svo málið. Það var gott að við skyldum koma því verkefni af stað. Árið 2015 og það sem af er árinu 2016 hefur því ekki verið í gildi fjögurra ára áætlun og er það í andstöðu við 2. mgr. 3. gr. laga um samgönguáætlun. Nefndin áréttar að í fjögurra ára samgönguáætlun birtist stefnumörkun stjórnvalda í viðhaldi og uppbyggingu samgöngukerfisins með aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi. Það er því mikilvægt að á hverjum tíma sé í gildi fjögurra ára samgönguáætlun til að byggja þá vinnu á.

Það er sérstakt fagnaðarefni að við skulum hér og nú vera að ræða fjögurra ára samgönguáætlun, sérstaklega í ljósi þess að mörg sveitarfélög og landssamtök sveitarfélaga hafa bent á mikilvægi þess að samþykkja samgönguáætlun frá Alþingi, það sé grunnurinn að því að hægt verði að fara í stórar framkvæmdir líkt og með Dýrafjarðargöngum. Vegagerðin benti á það á fundum nefndarinnar að nauðsynlegt væri til þess að geta farið í útboð og annað að samgönguáætlun lægi fyrir, svo að þeir hefðu fastan lagagrundvöll á afgreiðslu Alþingis til þess að geta hafið þá mjög svo mikilvægu framkvæmd.

Eins og ég nefndi áðan komu fulltrúar allra landshlutasamtaka, en á vettvangi þeirra starfa sveitarfélög landsins. Samgöngumál eru þannig í eðli sínu að fjalla þarf um þau sérstaklega með tilliti til hagsmuna landsvæða, enda tengjast samgöngumannvirki saman byggðir og búa til stærri atvinnusvæði. Þannig gegna þeir grunninnviðir sem samgöngukerfið er veigamiklu hlutverki í þjóðfélaginu. Það er staðreynd, og hægt að vísa í þróun síðustu áratuga, að atvinnusvæði hafa stækkað með tilkomu betri samgangna sem veita þannig íbúum svæðanna aukin tækifæri. Þess vegna hefur það sýnt sig svart á hvítu að samgöngumál eru afar mikilvæg fyrir byggðaþróun í landinu og í raun forsenda þess að búseta og fjölbreyttara atvinnulíf en nú er geti blómstrað hringinn í kringum landið. Við höfum ítarlega fjallað um mikilvægi flugsamgangna og bent á mikilvægu hlutverkin, bæði fyrir almenning og opinbera stjórnsýslu, enda flestar ríkisstofnanir staðsettar á höfuðborgarsvæðinu en starfa í þágu allra landsmanna.

Við fjölluðum sérstaklega um umferðaröryggi og ræddum mikilvægi þess að forgangsraða verkefnum þannig að umhverfisöryggi sé í forgrunni. Við teljum í meiri hlutanum ástæðu til að benda í því sambandi á vegi í Eyjafirði, Suðurfjarðaveg í Fjarðabyggð, Skagastrandarveg, vegi í uppsveitum Suðurlands, Grindavíkurveg, sem er afar fjölfarinn vegur vegna Bláa lónsins og aukinna umsvifa í sjávarútvegi í Grindavík. Þetta er að sjálfsögðu að öðrum vegarspottum ólöstuðum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að markaðar tekjur verði á þessu ári tæpir 18 milljarðar, árið 2017 tæpir 20 milljarðar og árið 2018 rúmlega 21 milljarður kr. Ef gjaldskrár markaðra tekna hefðu fylgt verðlagi, líkt og flestar aðrar opinberar gjaldskrár, mundu tekjustofnarnir skila hátt í 23 milljörðum kr. á ári í stað 16 milljarða kr. nú. Þessi mismunur hefur verið greiddur beint úr ríkissjóði en færður sem skuld hjá Vegagerðinni. Að mati meiri hluta nefndarinnar orka þessar bókhaldsfærslur tvímælis og eru því miður til þess fallnar að draga úr framlögum til þessa mikilvæga málaflokks. Það er mat okkar að vinda þurfi ofan af þessari skuld hjá Vegagerðinni og afskrifa hana, enda ljóst að féð kemur allt úr ríkissjóði hvora leiðina sem það kemur.

Framlög til samgöngumála hafa því miður verið lægri eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008 en árin þar á undan. Framlög Vegagerðarinnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru um 1,1%, sem er örlítil hækkun frá fyrra ári. Samkvæmt tillögunni, og það er fagnaðarefni, er gert ráð fyrir að útgjöld til vegamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði um 1,3% næstu tvö ár. Sögulega séð hefur þetta hlutfall verið í kringum 1,5% en fór hæst upp í rúmlega 2%, þ.e. árið 2008, rétt fyrir hrun, þegar menn töldu að sjóðir ríkisins væru stútfullir af fjármagni. Hvað sem öðru líður teljum við það raunhæft markmið til þess að auka framlög til samgöngumála og að þau verði á bilinu 1,5–2% af vergri landsframleiðslu. Við teljum það raunhæft markmið. Við bendum að sjálfsögðu á nauðsyn þess að gæta að ábyrgð í ríkisfjármálum, en við teljum að raunhæft sé að stefna að þessari hækkun vegna þess að við teljum að samgöngumálin séu afar brýnn málaflokkur og fjármagn til hans þurfi að auka verulega á næstu árum. Þess vegna er mikilvægt að framlög til samgöngumála fylgi aukinni landsframleiðslu og auknum tekjum.

Við höfum fjallað um í sjálfu sér þann mun sem var á tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og samgönguáætlun. Þessar áætlanir voru lagðar fram með mjög stuttu millibili og því miður var munur á þeim sem helgast kannski af því að verið er að leggja fram ríkisfjármálaáætlun í fyrsta skipti og menn þurftu að vinna hratt og örugglega og kannski ekki búnir að sjá fyrir endann á öllum þeim hnútum sem þar þyrfti að hnýta. Við bendum á að horft verði til fjárþarfar samgönguáætlunar þegar fjármálaáætlunin verður endurskoðuð einhvern tímann á næstu árum.

Það er ágætt að fara örstutt yfir útboð vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Samkvæmt lögunum sem gerð voru um þá framkvæmd átti að láta fara fram útboð, annaðhvort varðandi þjónustusamning um smíði og rekstur skips eða að samið yrði um smíði skips fyrir allt 4,8 milljarða. Af því að sú tillaga liggur fyrir verður það lagt fram sem breytingartillaga í samgönguáætlun, sem er að mínu mati mjög gott. Það er hv. þm. Vilhjálmur Árnason sem fer fyrir okkur varðandi það atriði.

Örstutt varðandi almenningssamgöngur, sem er gríðarlega mikilvægur málaflokkur að mínu mati. Árið 2012 var gerður samningur við landshlutasamtökin utan höfuðborgarsvæðisins um framkvæmd almenningssamgangna en verkefnið kom í kjölfar endurskipulagningar á sérleyfisakstri. Það var lögð mikil áhersla á mikilvægi þess til að jafna búsetuskilyrði og þess vegna yrði að tryggja rekstrargrundvöllinn.

Við höfum haft áhyggjur af fjármögnun kerfisins sem á grundvöll einkaréttar á ákveðnum leiðum, sem að mati landshlutasamtakanna er forsenda þess að hægt verði að reka kerfið án viðvarandi taps. Við tökum undir þær áhyggjur og brýnum Alþingi til að tryggja forsendur fyrir rekstri kerfisins en leggjum auk þess til til þess að styrkja rekstrargrunn þeirra að við bætist 75 millj. kr. sem viðbótarframlag til almenningssamgangna á landi sem er ætlað til þess að mæta uppsöfnuðum halla.

Eins og ég hef komið inn á í þessu máli og rakti í upphafi hefur þróun í opinberri þjónustu verið á þá leið að hún færist á færri staði, hún er sérhæfðari, líkt og heilbrigðisþjónusta, og hefur að miklu leyti aðeins verið veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er enn á ný mikilvægt að benda á mikilvægi innanlandsflugs sem almenningssamgöngur fyrir þá landsmenn sem búa annars staðar en á suðvesturhorninu. Það er mikilvægt að við tryggjum Reykjavíkurflugvöll sem miðstöð sjúkraflugs og innanlandsflugs í landinu og að hann verði í óbreyttri mynd á núverandi stað og tryggi þannig greiða aðkomu allra landsmanna að höfuðborgarsvæðinu og þeirri opinberu þjónustu sem veitt er þar. Það er alveg skýrt hjá meiri hlutanum að hann leggur mikla áherslu á það í samgönguáætlun að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í óbreyttri mynd á þeim stað sem hann er núna og ítrekar mikilvægi hlutverks hans í almenningssamgöngukerfinu fyrir byggðir landsins, fyrir íbúa hvar sem er, og að við honum verði ekki hróflað á næstu árum eins og yfirvöld í Reykjavík hafa lagt ítrekað til og unnið hörðum höndum að.

Það er ástæða til þess að fjalla um aukinn fjölda ferðamanna vegna þess að allir gera sér ljóst hversu mikið álag það hefur haft í för með sér fyrir vegakerfi landsins. Meiri hlutinn telur í stuttu máli að við verðum að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og aukningu annarra ferðamáta, eins og innanlandsflugs. Með því mætti jafna og minnka álag á þjóðvegi og ferðamannavegi og aðra innviði landsins.

Í vegáætlun eru lögð til útgjöld fyrir 106 milljarða kr. í vega- og hafnaáætlun á tímabilinu. Áhersla á forgangsröðun verkefna er á Vestfjörðum hvað varðar nýframkvæmdir en lagt er til að á seinni hluta tímabilsins verði árlega varið 7 milljörðum kr. til viðhaldsverkefna, sem er aukning um 1 milljarð kr. frá því að áætlunin var síðast til meðferðar. Þær tölur hækka nokkuð í þessu áliti og vonandi nást þær fram, eins og ég mun koma að síðar.

Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að auka fé til viðhalds verkefna á næstu árum í takt við aukna umferð. Meiri hlutinn leggur því til að á árinu 2017 eða 2018 verði samtals 2 milljörðum kr. bætt við í viðhald vega. Það er mikilvægt í því sambandi að horfa einnig til höfuðborgarsvæðisins. Helstu stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu eru í eigu og á ábyrgð ríkisins og eru það fjölförnustu vegir landsins. Við leggjum því til að leitað verði leiða til að fjármagna gerð Sundabrautar með aðkomu einkaaðila.

Gestum og umsagnaraðilum nefndarinnar bar öllum saman um að leggja þyrfti meiri fjármuni í viðhald vega og framkvæmdir á tengi- og héraðsvegum og til að fækka einbreiðum brúm. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til aukna fjármuni í viðhald þannig að á árinu 2017 verði það 8 milljarðar í stað 7. Meiri hlutinn leggur einnig til að árið 2017 og 2018 verði árlega veittir 500 millj. kr. aukalega í malbikun tengivega og sömu fjárhæðir í breikkun brúa, auk 100 millj. kr. í framkvæmdir á héraðsvegum. Þótt um verulega hækkun sé að ræða tel ég að við þurfum á næstu árum að gera enn betur í þeim efnum; viðhaldi vega, bætingu tengivega og fækkun einbreiðra brúa. Þetta er stórt og viðamikið og kostnaðarsamt verkefni, en ég held að allir landsmenn geri sér fyllilega grein fyrir mikilvægi þess.

Við leggjum til að lokið verði við framkvæmdir við Dettifossveg, sem er gríðarlega mikilvægur vegur í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það er fagnaðarefni að geta sagt að með því fjármagni á að ljúka þeirri framkvæmd. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar, stór liður í að loka hinum svokallaða demantshring og mun gera það að verkum að samfélagið á Norðurlandi nýtur enn betur þessa gríðarlega fallega landsvæðis og alls þess sem kemur með auknum ferðamannastraumi.

Við leggjum einnig til að framkvæmdir við Skagastrandarveg verði færðar fram til ársins 2017 og 100 millj. kr. bætt við árið 2018.

Við leggjum líka til að á árið 2018 verði settar 200 millj. kr. í Fróðárheiði, enda mikilvægt fyrir samfélagið á Snæfellsnesi.

Við leggjum til að 150 millj. kr. verði settar í Skeiða- og Hrunamannaveg árið 2018. Þar er um mikilvægan ferðamannaveg á Suðurlandi að ræða. Á sama grundvelli verði 60 millj. kr. settar í breikkun Biskupstungnabrautar frá Geysi að Tungufljóti árið 2017.

Við leggjum til að framkvæmdir við Bárðardalsveg og Borgarfjarðarveg um Njarðvíkurskriður hefjist árið 2017 og að 250 millj. kr. verði veittar til hvors vegar það ár og 500 millj. kr. aukalega til Borgarfjarðarvegar árið 2018.

Þá leggjum við til að framkvæmdir hefjist við Hörgárdalsveg árið 2018 og 200 millj. kr. verði veittar til verkefnisins það ár, en íbúar á því svæði hafa beðið í mörg, mörg ár eftir að þeim framkvæmdum ljúki. Þetta er einn af þeim vegum sem hefur sífellt verið ýtt aftar og aftar á áætlun, en vonandi tekst að klára þá mikilvægu framkvæmd nú.

Þá leggur meiri hlutinn til að 300 millj. kr. verði varið til að ljúka við framkvæmdir á Kjósarskarðsvegi á árinu 2017, enda mikilvægt öryggisatriði vegna stóraukins ferðamannastraums um veginn, auk þess sem vegurinn mun gegna mikilvægu hlutverki sem varaleið til Reykjavíkur þegar framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes hefjast árið 2018.

Þá leggur meiri hlutinn til aukið fjármagn til framkvæmda við hringveginn um Hornafjarðarfljót þannig að 250 millj. kr. bætast við árið 2017 og 100 millj. kr. 2018. Meiri hlutinn leggur til að 2017 verði 400 millj. kr. veittar til nauðsynlegra framkvæmda við brúna við Eldvatn á Ásum sem skekktist og missti burðarþol í kjölfar mikils rofs á austurbakka árfarvegarins í síðasta Skaftárhlaupi. Að auki leggur meiri hlutinn til að árið 2017 verði 300 millj. kr. veittar til breikkunar hringvegarins milli Bæjarháls og Nesbrautar, á árinu 2017 eða 2018 verði árlega veittar 100 millj. kr. til uppbyggingar Skarðsvegar í Skarðsdal og árið 2018 verði 200 millj. kr. veittar í malbikun vegarins um Berufjarðarbotn, 200 millj. kr. í framkvæmdir við Vatnsnesveg og 60 millj. kr. um Arnarnesveg.

Við fengum ábendingu um það frá Eyjafjarðarsveit að uppbygging á hjólreiðastígum hefði nánast eingöngu verið á höfuðborgarsvæðinu. Við teljum mjög mikilvægt að líka verði farið út á land og byggðir upp hjólreiðastígar þar. Það er ánægjulegt að sjá hversu mikinn áhuga sveitarstjórnarmenn í Eyjafjarðarsveit hafa á að leggja góða hjólreiðastíga. Við leggjum þess vegna til að árið 2017 og 2018 verði fjárveiting til hjólreiðastíga 30 millj. kr. á ári.

Við fengum fulltrúa frá samtökunum Stopp — hingað og ekki lengra. Þeir berjast fyrir umbótum á Reykjanesbrautinni. Við leggjum til að á árinu 2017 verði veittar 200 millj. kr. í gerð hringtorga á veginum og á árinu 2018 verði veittar 100 millj. kr. til endurbóta á Hafnavegi, en áður en af þeim framkvæmdum getur orðið þarf að ráðast í nauðsynlega skipulagsvinnu á svæðinu. Framkvæmdir við hringtorgið geta hins vegar hafist fljótt og leggur meiri hlutinn áherslu á að það verði, enda um verulega umferðarþungan vegarkafla að ræða. Það má með sanni segja að samtökin hafi staðið sig gríðarlega vel í að berjast fyrir þessum bættu samgöngubótum.

Ég ætla að fara örstutt yfir jarðgöngin. Það er unnið að framkvæmd við gerð Norðfjarðarganga, sem er gríðarlega mikilvæg framkvæmd. Hún hófst 2013 og er ætlað að henni ljúki 2017. Þá er jákvætt og gaman að segja frá því að lagt er til að framkvæmdir verði hafnar við Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Það þarf heimild í fjárlögum og samþykkta samgönguáætlun, eins og ég kom inn á áðan.

Þá er gert ráð fyrir að á árunum 2015–2018 verði unnið að jarðfræðirannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga, en meiri hlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar til að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi skýrt fram vegna þess að ég tel að þau göng geti orðið mikilvægur liður í bættum búsetuskilyrðum, ekki aðeins á Seyðisfirði heldur á öllu Austurlandi, og vonandi vísir að því að hægt verði að tengja saman firðina með svokallaðri hringtengingu gegnum Mjóafjörð og að við getum séð þá framkvæmd verða að veruleika fyrr en seinna.

Það er gaman að segja frá því að í rannsóknum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands kemur fram að göng og gangaframkvæmdir hafa jákvæð áhrif á atvinnusókn kvenna, þeim standa til boða fjölbreyttari störf og þær nýta nálægðina við þéttbýli í meira mæli en áður.

Við leggjum einnig til töluvert fé til hafnarframkvæmda. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulíf og verðmætasköpun. Við leggjum til fjármagn til Grindavíkurhafnar. Við leggjum til framlög til hafnarinnar í Þorlákshöfn, veitum fjármagn til rannsókna á Grynnslunum utan Hornafjarðar og leggjum til að framkvæmdir við höfnina á Dalvík verði í áætluninni, en fyrir nefndinni kom fram að úthlutað verði lóð undir fiskvinnsluhús við höfnina sem mun hafa mikil áhrif á atvinnumál bæjarins. Þá leggur meiri hlutinn til viðbætur vegna hafnarinnar á Siglufirði og vegna flotbryggju á Breiðdalsvík og að veittar verði 17 millj. kr. í höfnina á Arnarstapa, en sú upphæð kemur til frádráttar framkvæmdum í höfninni á Rifi. Jafnframt leggur meiri hluti nefndarinnar til að settar verði 35 millj. kr. árið 2017 í endurbyggingu á Suðurgarði í Sandgerði sem er orðinn hættulegur vegna tæringar. Þá setjum við 35 millj. kr. í höfnina í Helguvík, en ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum unnið að uppbyggingu á Reykjanesi og gert fjárfestingarsamning vegna tveggja verkefna þar.

Við leggjum til að setja 52 millj. kr. til að bæta flóðvarnargarð í Vík í Mýrdal.

Það er gaman að segja frá því að við erum loksins að tryggja það að fjármunir fyrir framkvæmd við flughlaðið á Akureyri verði að veruleika. Sú framkvæmd hefur aldrei verið á samgönguáætlun og hefur lengi staðið styr um fjármagn til þess að nýta efnið úr Vaðlaheiðargöngum í uppbyggingu flughlaðsins. Flugvöllurinn er á undanþágu, en um gríðarlega mikla og góða samgönguframkvæmd er að ræða. Við leggjum til að setja um 90 millj. kr. árið 2017 og 70 millj. kr. árið 2018 til að taka við efninu og klára þann flutning, en í kjölfarið verður hægt að ráðast í uppbyggingu flughlaðsins og ég ítreka að það er mjög gott að geta komið þeirri framkvæmd á koppinn.

Við höfum rætt mikið um eflingu innanlandsflugs, með hvaða hætti megi gera það. Það eru því miður mörg áhyggjuefnin sem menn hafa út af stöðu innanlandsflugsins og út af flugvöllum. Þó að við séum að bæta töluvert í flugvelli vítt og breitt um landið tel ég að við þurfum að gera bragarbót þar á á næstu árum. Efling innanlandsflugsins er stærsti liður í að dreifa ferðamönnum betur um landið og við leggjum því til að innanlandsflugið verði styrkt sérstaklega, ekki eingöngu þær leiðir sem njóta styrkja í dag, heldur allar leiðir svo hægt verði að lækka flugverð á milli landshluta, sem er gríðarlega mikilvægt. Við viljum að þetta verði gert að hluta af almenningssamgöngukerfinu og þess vegna leggjum við til að 300 millj. kr. komi sem byrjunarframlag til að finna leiðir til að tryggja megi rekstrargrundvöll innanlandsflugsins og hóflegt farmiðaverð. Við leggjum einnig til að farið verði í að kanna hvort gera megi breytingar á fyrirkomulagi innanlandsflugs vegna þeirra samfélagslegu hagsmuna sem eru fólgnir í rekstri þess og, eins og ég sagði áðan, til þess að lækka megi flugmiðaverð. Við nefnum nokkrar leiðir í þeim efnum.

Við teljum líka mikilvægt að endurskoða rekstrarfyrirkomulag Isavia og það hvernig arður sem myndast af rekstri Keflavíkurflugvallar verði nýttur í þágu allra landsmanna og þá til uppbyggingar flugvalla allt í kringum landið. Því miður hefur sá gríðarlegi arður sem hefur komið út af aukningu ferðamanna nánast eingöngu farið í uppbyggingu á svæðinu. Þetta er fyrirtæki allra landsmanna. Við teljum að skoða þurfi rekstrarfyrirkomulagið alvarlega.

Að því sögðu vil ég þakka nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir mikla vinnu og það að við höfum getað farið mjög ítarlega yfir málið og kallað til alla þessa umsagnaraðila. Við reyndum eftir megni að skoða líka og gerðum okkur sérstaka ferð á Vestfirði og Norðurland og hefðum viljað komast víðar. Það er full ástæða til að þakka nefndarmönnum í bæði minni og meiri hluta. Þó að við í meiri hlutanum skrifum undir þetta nefndarálit kemur fram í áliti minni hlutans (Forseti hringir.) að þeir styðji þær framkvæmdir sem við leggjum til þótt þeir hafi kannski einhverjar aðrar áherslur.