145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Kannski er ástæða til að óska hv. þingmanni til hamingju með að loksins hilli undir þann möguleika að þessi ríkisstjórn komi frá sér samgönguáætlun eða klári hana, en það má líka ekki seinna vera, ríkisstjórn í andarslitrunum á síðustu metrunum. Vandinn er hins vegar sá að innihaldið er allt of dapurlegt. Jafnvel þó breytingartillögurnar lagi það nokkuð þá er engin leið að gleðjast yfir því hversu svakalega langt á eftir við erum í þeim efnum að ná aftur fjárveitingum til þessa málaflokks upp í eðlilegt hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þörfin er orðin svo æpandi að um það er ekkert lengur deilt.

Ég vil spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Verður ekki stjórnin og meiri hlutinn að viðurkenna að breytingartillögurnar eru náttúrlega viðurkenning á því að menn hafi gert mikil mistök í því að leggja ekki betur til þessa málaflokks með batnandi þjóðarhag undanfarin þrjú ár? Þau ár eru glötuð, við höfum svelt þetta allt of mikið.

Í öðru lagi vildi ég heyra hv. þingmann fara aðeins yfir það hverju það sæti að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hefur ekki fært markaða tekjustofna upp til verðlags undanfarin missiri. Þar hefur myndast slaki upp á sennilega 7 til 8 milljarða miðað við vaxandi umferð. Nú hafa verið einstaklega hagstæðar aðstæður til þess að afla þarna aukinna tekna sem umferðin borgi sjálf. Auðvitað er það hún sem að uppistöðu til á að borga fyrir samgöngumannvirkin. Með því að eldsneytisverð hefur lækkað á heimsmarkaði og útsöluverð hér heima um einhverjar 50, 60, 70 kr. á lítrann frá því hæst var, þannig að það hefur verið alveg einstaklega þægilegt að taka, þó ekki væri nema í áföngum, inn hækkun á mörkuðum tekjum, olíugjaldi, sérstöku bensíngjaldi, þungaskatti og olíugjaldi, og það hefði fært mönnum 7 til 8 milljarða í aukið fé. Hvernig svarar meiri hlutinn fyrir þetta?