145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að útbreidd óánægja er með stöðu lífeyrisþega og kjaramál þeirra í landinu og var m.a. til umfjöllunar á geysifjölsóttum fundi í Háskólabíói í gærkvöldi. Velferðarnefnd hefur verið að fara yfir frumvarpið til breytinga á almannatryggingum. Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hún telji koma til greina að gera breytingar á frumvarpinu sem liggur í þinginu þannig að það auki hlut ellilífeyrisþega frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og dragi úr þeim óhóflegu tekjutengingum sem við erum með í kerfinu og sannarlega eru harðlega gagnrýndar. Hér er ég ekki síst að vísa til tekjutengingar vegna atvinnutekna af því að svo bagalega vill til að vegna þeirra takmörkuðu fjármuna sem til ráðstöfunar eru í tengslum við þessar breytingar þá kemur það þannig út að fólk sem er kannski í hálfu starfi með 150–200 þús. kr. í atvinnutekjur er verr sett eftir en áður. Það hlýtur auðvitað að vera nokkuð á skjön við þær væntingar sem menn höfðu til þessara breytinga á almannatryggingum, en það stafar auðvitað af því að það hefur skort fjármuni inn í þetta.

Ég spyr ráðherra þess vegna hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni, hvort hún hafi rætt við hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, eða hvort það sé til umfjöllunar í þingflokkum stjórnarflokkanna að rýmka þennan ramma, setja meira fé inn í þessar breytingar á almannatryggingakerfinu sem klárlega þarf til að þetta megi vera eitthvað í áttina að því sem fólk hefur væntingar til. Og hvort það sé þá sérstaklega þessi þáttur, þ.e. að draga úr skerðingum vegna atvinnutekna fólks, (Forseti hringir.) sem kæmi til greina að breyta til batnaðar frá því sem upphaflega var lagt upp með.