145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[10:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og við þekkjum bæði, ég og hv. þingmaður, er mikilvægt að tryggja fjármagn til þess að fara í nauðsynlegar breytingar. Ég hef lagt áherslu á það og barist fyrir því að fá aukið fjármagn inn í almannatryggingarnar.

Að baki því frumvarpi sem nú liggur hjá velferðarnefnd er gert ráð fyrir að rúmir 5 milljarðar komi til viðbótar inn í almannatryggingarnar strax um áramótin. Við höfum verið að reikna þetta út og taka saman upplýsingar og höfum að sjálfsögðu líka samráð við þingmennina sem vinna við málið. Ég get ekki tjáð mig frekar en það sem ég hef þegar gert, en ég hef barist fyrir því að fá aukna fjármuni í málaflokkinn og tel mjög mikilvægt að við bregðumst við þeim athugasemdum sem borist hafa varðandi atvinnutekjurnar, eins og nefnt er hér.

Frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem hv. þingmaður sat í og við fórum nákvæmlega eftir þeim tillögum sem þar komu fram. En að sjálfsögðu er það síðan í höndum þingsins að taka ákvörðun um hvað skuli bæta. Ég vil líka benda á að það eru ákvæði (Forseti hringir.) sem komu frá nefndinni um að fólk geti fengið hálfan lífeyri án nokkurrar tekjuskerðingar, sem er nýtt í almannatryggingum og hefur ekki þekkst áður.