145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

ræða ráðherra á allsherjarþingi SÞ.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. utanríkisráðherra Lilja Alfreðsdóttir gerði menntun og baráttu fyrir bættu stjórnarfari og virðingu fyrir réttarríkinu að meginefni ræðu sinnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 24. þessa mánaðar. Þetta var prýðileg ræða en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig hún hyggst beita sér fyrir því að slík virðing gagnvart réttarríkinu og stjórnarfari eigi sér stað hérlendis.

Í þessu samhengi vék utanríkisráðherra m.a. að átökum í Sýrlandi og framlagi Íslands til flóttamannavandans en það er auðvitað alþekkt að þrátt fyrir að við tökum vel á móti kvótaflóttamönnum er ekki sama sagan gagnvart þeim sem sækja um hæli á Íslandi. Okkar saga í því samhengi er því miður ekki falleg. Það er bara þannig. Því fannst mér hæstv. ráðherra aðeins segja hálfa söguna þegar hún talaði um hvað Ísland væri frábært í þessu samhengi í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum.

Utanríkisráðherra vék að mannréttindum og réttarríkinu og sagði að ef lög byggðu ekki á mannréttindum mundu þau aldrei njóta stuðnings almennings til langframa heldur sá fræi misréttis og grafa undan samfélagsgildum. Þannig gætu slæmir stjórnarhættir ógnað öryggi þjóða og valdið óstöðugleika. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað ráðherranum finnst um þann gjörning þegar fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra sniðgekk ekki bara sín eigin loforð gagnvart þjóðinni heldur líka þingið þegar var farið til Brussel og stöðvaðar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Er það stöðugleiki og virðing fyrir réttarríkinu?