145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

samningar um NPA-þjónustu.

[10:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mun svo sannarlega óska skýringa á því hvernig stendur á því að hv. þingmaður er kominn með upplýsingar sem ég er ekki búin að fá í hendur. (ÖS: Lesa heima, ráðherra.) Ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur áhuga á að blanda sér inn í þessa umræðu er ég viss um að hann getur fengið að koma hér upp um fundarstjórn á eftir.

Ég vil ítreka að ég hef lagt áherslu á það í mínum störfum sem ráðherra að nýta peningana í þágu fatlaðs fólks, í þágu skjólstæðinga minna þannig að ég afþakka tillögu um að fara að leigja Hörpuna undir þetta verkefni. Ég legg hins vegar áherslu á að það liggur fyrir frumvarp (Gripið fram í.) til umsagnar. Ég vonast svo sannarlega eftir því að við getum náð samstöðu um að afgreiða það mál því að ég held að það sé mál sem við getum öll verið sammála um.

Ég vil líka hvetja hv. þingmann eindregið til að huga að því að hluti af vandanum sem snýr núna að þjónustu við fatlað fólk er mannekla. Ekki það að (Forseti hringir.) fjármuni skorti, því að þá hef ég tryggt, heldur að það fæst ekki fólk til að sinna verkefninu.