145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjárhagsstaða heilsugæslunnar.

[11:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Menn virðast ekki vita hvað rauntími er, það þarf bara sérstakan kúrs í því, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það komi auknir fjármunir í heilsugæsluna á þessu ári eins og við ræddum. Áform mín standa öll til þess, svo það sé sagt. Það er algjörlega út úr öllu korti að dæma þetta fjármögnunarkerfi ónýtt á grundvelli þeirra frétta sem komu í Fréttablaðinu. Eðlilega hafa menn áhyggjur af fjármögnun hverrar stöðvar fyrir sig. En þetta kerfi er byggt upp á þeim grunni að þetta eru fjármunir sjúklinga en ekki starfsmanna heilsugæslunnar. Það er verið að jafna fjárveitingu sem við erum að setja, 6,2 milljarðar á ári, á sjúklinga en ekki starfsfólk. Við ætlumst til þess og það er sjálfsögð krafa að heilsugæslustöðvarnar séu jafnsettar í fjármögnun sinni (Forseti hringir.) með því að fá tryggingu fyrir því að þær geti þjónað því sjúklingasafni sem á þær er skráð, allt frá 8.000 upp í 15.000–16.000 manns.