145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[11:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég óska eftir því að tekinn verði fyrir á milli umræðna m.a. sá hluti er varðar sveitarfélögin og innkaupareglurnar. Ég tel að við ættum að leyfa sveitarfélögunum að hafa innkaupareglur sínar eins og þær eru í dag. Það hefur ekki verið vesen með þær eða komið formlegar kvartanir þeirra vegna. Þetta er kostnaðarauki, enn einn kostnaðaraukinn fyrir sveitarfélögin sem kvarta sáran. Bæði er það til komið vegna kærunefndarinnar sem hér er undir og svo viðmiðunarfjárhæða sveitarfélaga vegna útboða.

Það hefur komið fram í málinu og í rökstuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga að þetta varð til þess að kostnaðurinn vegna sérfræðikaupa margfaldaðist t.d. í Danmörku og Noregi. Þar hefur viðmiðunarfjárhæðunum verið breytt.

Svo er vert að halda því til haga, af því hv. þingmaður talaði hér á undan um Evrópusambandið og allt það, að þetta er ekki í tilskipuninni. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja þetta inn á þennan hátt. Þess vegna finnst mér að við getum algjörlega tekið á þessu máli og í rauninni leyft sveitarfélögunum (Forseti hringir.) að halda innkaupareglum sínum eins og þær eru í dag.