145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hana út í ýmislegt sem er í þessari samgönguáætlun, eða sem er þar ekki. Það er ámælisvert að hún skuli loksins vera að líta dagsins ljós nú rétt fyrir kosningar eftir þriggja ára setu þessarar ríkisstjórnar. Óneitanlega lyktar það svolítið eins og kosningaplagg þrátt fyrir að við séum öll sammála um að þessa fjármuni vanti inn í kerfið, það dregur enginn dul á það. Þá virðist einhvern veginn ekki hafa náðst samkomulag á milli innanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins fyrr en núna. Þess vegna hefur mér fundist vera kosningabragð af þessu.

Mig langar aðeins að spyrja um nokkra hluti. Í ræðu hv. framsögumanns meiri hlutans í gær kom fram að sett væri viðbótarframlag í innanlandsflugið upp á 300 millj. kr., minnir mig að hann hafi sagt. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, langar mig að spyrja um það sem fram hefur farið á nefndafundum og hvort það sé rétt skilið hjá mér að fara eigi í það að lækka farmiðagjald eða kostnað þannig að það verði ódýrara fyrir fólk að fljúga. Í morgun var verið að ræða að það væri í skoðun í ráðuneytinu hvort einkavæða ætti innanlandsflugið eða hvort Isavia héldi áfram rekstri millilandaflugvalla, þ.e. þeirra valla sem hafa þá stöðu, og að Vegagerðin tæki hina. Mér finnst það reyndar alveg ótækt þar sem Vegagerðin er vanfjármögnuð.

Ég ætla að byrja á þessu. Ég sé að tími minn er búinn. Ég bæti svo við spurningum á eftir.