145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:56]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera eins og aðrir og fagna því að við séum að ræða samgönguáætlun og fagna einnig áhuga þingmanna á þessu málefni. Mælendaskráin er löng, sem er vel, og sýnir mikilvægi þessa málaflokks. Ég vona að þingheimur sýni málaflokknum þessa athygli líka þegar kemur að forgangsröðun um málefni þingsins. Ég hef alltaf sagt og held því statt og stöðugt fram að samgöngumál séu mikilvægasta velferðarmálið. Eins og ég hef oft sagt úr þessum ræðustól eru um 200 manns á ári sem látast eða slasast alvarlega í umferðinni, svo eru líka slys tengd öðrum fararmátum. Þetta veldur gríðarlegu álagi á öryggisþjónustu þessa samfélags og á heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið og annað slíkt, fyrir utan þann félagslega missi sem þar verður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að bregðast við þessu. Svo vitum við líka að allar samgöngur eru grunnurinn að svo mörgu öðru, að því að stækka atvinnusvæði, það er hagræðing í bæði opinberum rekstri og hjá fyrirtækjum sem skila auknum hagvexti og auknum tekjum ríkissjóðs, það er hagkvæmur rekstur heimilanna og annað sem gerir okkur kleift að setja meiri fjármuni í velferðarkerfið sem slíkt, sem við viljum öll forgangsraða í. Þetta skiptir allt miklu máli.

Ég ætla í upphafi ræðu minnar að mæla fyrir breytingartillögu sem ég hef lagt fram við samgönguáætlunina. Það má segja að það sé tæknileg breyting. Þegar við vorum að vinna meirihlutaálitið eða málið í nefndinni og lögðum álit okkar fram var ekki komið í ljós varðandi stöðuna og útboðið með Herjólf, en Herjólfur var boðinn út, hvort sem það yrði nýsmíði eða rekstrarsamningur. Núna er búið að opna tilboðin og fara yfir þau og þá bendir flestallt til þess að nýsmíðin sé mun hagkvæmari leið að fara en rekstrarsamningur og er unnið út frá því núna innan Vegagerðarinnar að ganga frá slíku máli. Því er rétt að gera ráð fyrir þeirri breytingu í samgönguáætlun, fjármunum til að smíða nýja ferju, nýjan Herjólf. Þess vegna hljóðar þessi breytingartillaga upp á það að 500 milljónir komi núna á árinu 2016 til þess að hefja smíði ferjunnar, 1.700 milljónir á árinu 2017 og 1.400 milljónir á árinu 2018, þegar ferjan á að komast í gagnið. Í raun og veru er þetta tæknileg breyting þar sem gert er ráð fyrir þessum fjármunum í ríkisfjármálaáætlun. Við höfum samþykkt sérlög um smíði Herjólfs á þinginu áður, fyrr í vor, og þess vegna er þetta rökrétt framhald af því og ætti að vera auðsótt mál að fá samþykkt að ég tel.

Þá að samgönguáætluninni sjálfri og samgöngumálunum. Þetta er mjög fjölbreyttur málaflokkur sem skiptir samfélagið miklu máli. Umræðan um hann hefur oftast farið svolítið í einstaka vegi og einstakar vegaframkvæmdir og svolítið fest þar. Heildaráhrif samgöngumála koma því kannski ekki alltaf inn í umræðuna. Ég byrjaði ræðu mína á að benda á hver þau eru og mun tala meira um þau í ræðunni. Til þess að upplýsa snýst samgönguáætlun um allt vegakerfið og þær brýr, göng og vegi og hvað það er sem tengist því, um allt flug, innanlandsflug og flugvelli, ekki millilandaflugvöllinn í Keflavík reyndar en aðra flugvelli, um ferjur og þjónustusamninga um styrki á ferjuleiðum, um allar hafnir landsins, styrki til hafnanna, en eina höfnin sem ríkissjóður rekur sjálfur er Landeyjahöfn, annað er á hendi sveitarfélaganna og hér eru styrkir þar í gegn, og svo eru það sjóvarnirnar, sem eru gríðarlega mikilvægar til að verja strandir landsins og annað slíkt. Það er því af mörgu að taka þarna og þetta er mjög fjölbreytt. Í það er áætlað á árunum 2017 og 2018 28,7 milljarða á ári en upphæðin hækkar um rúma 5 milljarða hvort ár með breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur lagt fram með stuðningi allrar nefndarinnar, svo það komi nú fram.

Þegar við ræðum samgöngumál er mjög mikilvægt að gera það út frá því hvaða markmiðum við viljum ná. Í mínum huga eigum við að setja umferðaröryggi á oddinn. Það er það sem þetta snýst um fyrst og fremst, að hafa öruggar samgöngur. Það er hægt að ná því markmiði á margan hátt, bæði með litlum framkvæmdum og stórum. Margar framkvæmdir sem eru í samgönguáætluninni stuðla að öryggi og eru unnar út frá því og þeim sem við leggjum til og ég fer betur yfir á eftir. Það er líka hægt að taka svokallaða stjörnugjöf og setja sér það markmið að gera alla vegi sem eru með tíu þúsund bíla og meira á sólarhring að fimm stjörnu vegum, alla vegi sem eru með fimm til tíu þúsund bíla að fjögurra stjörnu vegum o.s.frv. Svona getum við markvisst unnið okkur niður og sett okkur markmið um að vera með örugga vegi, fimm stjörnu vegi og fimm stjörnu bíla og þá er bara eftir að fá fimm stjörnu ökumenn, sem ég held að verði erfitt. 90% af öllum umferðarslysum eru út af mannlegum mistökum og því mjög mikilvægt að hafa vegina og bílana til þess að fækka þessum mistökum og til þess að bregðast við mistökunum á sem öruggastan hátt. Þetta mun ekki kosta nærri því jafn mikið og umferðarslys kosta okkur á hverju einasta ári. Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir heilbrigðisráðherra á þinginu kom fram að umferðarslys kosta íslenskt samfélag um 50 milljarða á ári, sem er 100% meira en við setjum í samgöngumálin í heild sinni árlega. Með því að taka hluta af vegakerfinu og gera vegina að fimm stjörnu og fjögurra stjörnu vegum ættum við að geta dregið verulega úr slysum samhliða því að við aukum löggæslu og eftirlit á vegunum, sem er hægt að gera á fjölbreyttan hátt, sem mun líka hafa mjög mikil áhrif.

Svo er mikilvægt að bregðast við þeim mikla fjölda ferðamanna sem kemur til landsins. Þeir auka álagið á vegakerfinu. Þeir eru ekki vanir okkar aðstæðum. Umferð ferðamanna reynir líka á þolmörk íbúa í sveitum landsins og þá atvinnustarfsemi sem þar er. Öllu því þurfum við að gefa gaum, bjóða þessa ferðamenn velkomna með öruggum vegum en láta þetta líka verða að innspýtingu fyrir sveitirnar með því að bæta vegina þannig að pláss sé fyrir bæði atvinnulífið heima fyrir og samfélagið.

Það er oft talað úr þessum ræðustól um mikilvægi þess að sameina sveitarfélög, það sé skynsamlegt í hagræðingarskyni og annað. Það gerist ekki nema með góðum innviðum, með góðum vegum og góðum samgöngum á milli. Þegar er verið að sameina skóla og auka skólaakstur verður að vera hægt að flytja nemendur á milli heimilis og skóla á öruggan hátt. Við erum með svoleiðis tillögu í meiri hlutanum, t.d. að gera veg yfir Fróðárheiði sem átti að koma samhliða sameiningu sveitarfélaganna þar og sameiningu skóla. Það kemur hér enn og aftur inn í áætlunina og verður vonandi staðið það við núna. Þá skipta máli varðandi ferðamennina, þolmörk sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og dreifingu ferðamannanna sem víðast um landið, héraðs- og tengivegir sem eru ein mikilvægasta framkvæmdin. Því er fagnaðarefni að við bætum verulega í þá vegi hér. Það skiptir gríðarlega miklu máli, þannig stækka atvinnusvæðin.

Ég held að eitt af stóru átaksverkefnum okkar sé að stórefla héraðs- og tengivegina um allt land til þess að dreifa ferðamönnunum, auka sameiginleg atvinnusvæði og auka umferðaröryggi. Það jafnast á við átakið Ísland ljóstengt, sem er líka mikilvægt og mætti vera hluti af samgönguáætluninni en er í fjarskiptaáætlun, séráætlun um það.

Um 85% allra ferðamanna fara um Suðurlandið. Þar af leiðandi er viðhald vega mjög brýnt þar, endurbætur mjög brýnar. Þar eru flestar einbreiðar brýr og mikilvægt að taka á því. Þess vegna langar mig að nefna nokkur atriði um það hvernig er verið að taka á þessu.

Varðandi einbreiðu brýrnar leggjum við til 500 milljónir aukalega við þær 300 sem áætlaðar voru hvort ár næstu tvö ár, þannig að það eru um 800 milljónir á ári í að útrýma einbreiðum brúm. Það ætti að vera hægt að fækka þeim um þrjár á hvoru ári miðað við þetta. Þá vil ég líka benda á nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót sem er í samgönguáætlun og er hafist handa við núna á næsta ári. Í þeirri framkvæmd fækkar einbreiðum brúm um þrjár til viðbótar við það sem ég nefndi áðan. Það er verið að klára að gera nýja brú yfir Morsá og svo er verið að vinna að nýju aðalskipulagi um Öræfasveit. Sú vegalagning sem er þar gerir áætlun inni í þeirri vegalagningu, ekki á liðnum Einbreiðar brýr heldur inni í vegalagningunni, um að einbreiðum brúm gæti fækkað um allt að fimm.

Fyrir utan þetta eru fleiri tillögur sem innihalda nýjar vegaframkvæmdir á Austfjörðum og annars staðar og þar inni eru einbreiðar brýr. Samkvæmt þessum áætlunum munum við sjá verulega fækkun á einbreiðum brúm á næstu árum, sem er mikið fagnaðarefni, og við erum að byggja upp vegi sem koma fram í mælingum Euro RAP sem áhættumiklir vegir þegar kemur að umferðaröryggi, mjög áhættusamir, og líka umferðarþungir vegir.

Þar ber að nefna, sem er mikið fagnaðarefni og eitt mikilvægasta verkefni í samgöngumálum, að tvöfalda allar stofnbrautir frá höfuðborgarsvæðinu með aðskildum akstursstefnum, breikka þessa vegi og aðskilja akstursstefnur. Þetta eru fjölförnustu vegir landsins, Reykjanesbrautin, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur. Allar framkvæmdirnar þrjár eru í samgönguáætlun og með þessum breytingartillögum. Það hefst núna með 500 millj. kr. fjárframlagi í breikkunina á Suðurlandsvegi á næsta ári. Á árinu 2018 verður hafist handa við að breikka veginn um Kjalarnes og strax á næsta ári verður farið í svokallaðar bráðabirgðaaðgerðir við Reykjanesbrautina, frá Fitjum að flugstöð, með því að bæta þar við hringtorgum á hættulegum gatnamótum. Á árinu 2018 er gert ráð fyrir fjármagni til þess að tengja Hafnarveg við hringtorgið við Fitjar. Það er mikilvægt að þetta gerist sem fyrst til þess að draga úr áhættunni á þessum mjög fjölfarna vegi. Hann er ekki aðeins fjölfarinn heldur er umferðin líka fjölbreytt. Það er mikil atvinnuuppbygging á flugvellinum, í Helguvík og svo er íbúðabyggð beggja vegna vegarins og miklir fiskflutningar og önnur frakt sem fer þarna um flugvöllinn. Þetta skiptir miklu.

Síðan verður líka hafist handa við að gera gatnamót við Krýsuvíkurveg og Reykjanesbraut, þannig að í þessari samgönguáætlun er haldið myndarlega áfram með tvöföldun Reykjanesbrautar beggja vegna. Þá má ekki gleyma því að það er komin fram 12 ára áætlun sem ég vil benda á. Hún liggur frammi í þingskjölum, samgönguáætlun til 12 ára, og þar er gert ráð fyrir því á öðru tímabili, frá 2019–2022, að Reykjanesbrautin, frá Fitjum að flugstöð, verði tvöfölduð. Vegagerðin lýsti því á fundi nefndarinnar að hún hefði hafist handa við að undirbúa þá framkvæmd og hefði til þess fjármuni af liðnum Framtíðarmannvirki. Sú framkvæmd er komin af stað og þær er framkvæmdir sem við leggjum til hér, hringtorgin, munu ekki seinka þeirri framkvæmd, sem er mikilvægt.

Ég nefni viðhald vega. Landshlutasamtökin komu öll saman til okkar á nefndarfundina og lögðu til sína forgangsröðun og ég held að við höfum náð að svara flestum af beiðnum þeirra um forgangsröðun. Þau komu öll með viðhald vega og við bætum vel í það. Þau fjölluðu mikið um héraðs- og tengivegi sem ég kom inn á áðan. Það er mikilvægt að þeim fjármunum verði ráðstafað samkvæmt greiningum þannig að Vegagerðin meti það hvar mesta álagið er á vegunum, hvar áhættan er mest út frá umferðaröryggi og öðru. Þarna má nefna veg eins og Grindavíkurveg sem gríðarlega mikið af ferðamönnum fer um. Þar er stærsti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið, og mikið af fiskflutningum af öllu Suðurlandi og annað slíkt sem fer þarna um. Það þarf að horfa á svona. Það þarf að horfa á Suðurlandið þar sem 85% ferðamanna keyra og eru allt árið, hvort sem þeir eru að skoða norðurljósin, eru þar yfir sumartímann eða á öðrum árstíma. En að sjálfsögðu eru hættulegir vegir hringinn í kringum landið sem þarf að horfa til. Það er mikilvægt að fjármunum sem eru í svona pottum sé ráðstafað á ábyrgan og öruggan hátt.

Þetta er það helsta varðandi vegina. Það er fjöldi af mjög mikilvægum framkvæmdum lagður til í þingsályktuninni og breytingartillögunni okkar sem eru til þess að tryggja umferðaröryggi og bregðast við ferðamannastraumnum og eru mikilvægar fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sveitunum. Ég vil nefna nokkra vegi sem tengjast þessu öllu saman eins og um Hornafjarðarfljót, sem er einn hættulegasti vegur landsins, það er Vatnsnesvegur í Norðvesturkjördæmi sem er mikill ferðamannavegur, Fróðárheiði sem tengist sameiningu sveitarfélaga og skólans, eins og ég kom inn á, Skagastrandarvegur, sem er mjög hættulegur vegur úti á landi, Kjósarskarðsvegur sem er einn af öryggisvegum og flóttaleið við höfuðborgarsvæðið, Skeiða- og Hrunamannavegur sem eykur hringtenginguna á svæðinu í kringum Gullfoss og Geysi og þar, og breikkun á Tungufljóti. Svona er hægt að halda lengi áfram. Þetta skiptir allt máli.

Mig langar áður en tíminn klárast að nefna aðeins hafnirnar og flugið sem er mjög mikilvægt. Það er töluvert af hafnarframkvæmdum í samgönguáætlun og í viðbótum okkar. Hafnirnar hringinn í kringum landið voru allar byggðar á svipuðum tíma, eða fyrir um 40 árum, og stálþilin þar eru að skemmast. Einn undirstöðuatvinnuvegur okkar þarf að nota þessar hafnir og þær eru mikilvægar fyrir byggðirnar svo að þær byggist upp og eru grunnur að öflugu atvinnulífi. Ég er sérstaklega tala um aðstæður þar sem þetta getur skipt máli, eins og í Þorlákshöfn. Þar er núna mikil umræða um að verið sé að selja aflaheimildir og annað úr sveitarfélaginu. En öflug höfn sem getur tryggt bæði ferjusiglingar, flutningaskip og annað, ef öflug höfn byggist þarna upp er hægt að skapa fullt af atvinnu í kringum það. Samgöngumannvirkin skipta svo miklu máli. Þetta á líka við í mínu sveitarfélagi þar sem sjávarútvegurinn hefur verið að byggjast mikið upp, eins og í Grindavík. Sú höfn er gríðarlega mikilvæg fyrir það sveitarfélag þótt almenningur sjái það ekki berum augum, en það er mikið af framkvæmdum undir sjávarborðinu.

Innanlandsflugið ætlaði ég að koma inn á í lokin. Það er gífurlega mikilvægt að við finnum leiðir til að efla það. Þess vegna eru lagðar til 300 milljónir á árinu 2018 og þá á að skoða hvort lækka eigi fargjöldin með því að lækka álögur ríkisins og hvort við eigum að fara í einhvers konar útboðsleið á ferðunum. Ég hefði líka viljað skoða hvort við getum farið í það að gera þetta svipað og með hafnirnar, að einhver annar taki að sér rekstur flugvallanna sem finnur einhver verkefni fyrir flugvellina og ef þeir uppfylla viss skilyrði geta þeir fengið styrk frá ríkinu til þess að reka þá, eins og ríkið styrkir hafnirnar, reyna að koma svolitlu lífi í flugvellina og finna fyrir þá verkefni.

20 mínútur er ekki mikill tími til að tala um samgöngumál sem er manns helsta áhugamál og markmið í þingstörfunum. Ég hlakka til að eiga frekari samræður við ykkur öll um þau á komandi tímum.