145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér loksins tillögu ríkisstjórnar til samgönguáætlunar fyrir árin 2015–2018. Formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, flutti nefndarálit meiri hlutans og fór yfir það að engin samgönguáætlun hefur verið í gildi undanfarin ár, þ.e. stutt áætlun. Ég held að enginn hafi farið jafn vel yfir það mál og hv. formaður nefndarinnar, fulltrúi annars stjórnarflokksins, og það er rakið í nefndarálitinu hvernig þessar stuttu samgönguáætlanir döguðu uppi, m.a. í fyrra þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar viðurkenndi það með störfum sínum að framlögð tillaga að þingsályktun frá hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal var tillaga um að gera ekki neitt; Íslandsmet í samgöngumálum um að gera ekki neitt. Þannig var það.

Þegar meiri hlutinn á síðasta þingi lagði til auknar framkvæmdir og meiri fjárútlát þá stoppaði málið einfaldlega. Þess vegna er hann með það hér inni núna enn einu sinni að búa til samgönguáætlun fyrir þessi ár þannig að hún fái samþykki Alþingis og Vegagerðin og aðrir sem þurfa að vinna eftir henni hafi þá samþykkta samgönguáætlun til að vinna eftir. Það kom fyrst og fremst til út af átökum milli hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumál, og ríkisstjórnarforustuherranna sem stoppuðu þetta af í fyrra. Það er rétt að draga þetta fram hér vegna þess að það má þó segja það meiri hlutanum til hróss að hér eru margar tillögur settar inn og gefið í. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, fulltrúi jafnaðarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd, fór vel yfir það í nefndaráliti minni hlutans þar sem hún lýsti því yfir að margar af þessum tillögum væru til bóta og er sjálfsagt að styðja tillögur um aukin verkefni.

Á fyrstu síðu í áliti minni hluta samgöngunefndar er fjallað um það hvernig framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa verið frá árinu 2006 til 2015. Þá sjáum við að það allra lægsta sem nokkurn tímann hefur sést er á fyrsta ári þessarar ríkisstjórnar, þ.e. árið 2014, þar sem þetta tosast rétt yfir 1%, örlítið meira árið 2015. En þar eru líka árin 2008, 2009 og 2010, sem eru mestu framkvæmdaár í samgöngumálum í Íslandssögunni, eins og við vitum. Árið 2008, á því erfiðleikaári, fer hlutfallið upp í 2,5% af vergri landsframleiðslu.

Menn verða alltaf að hafa hugann við samspil annarra þátta hvað þetta varðar, en þarna var gefið í og þarna nutum við þess líka að tekin var ákvörðun af þáverandi hæstv. ríkisstjórn um að gefa í í samgöngumálum út af erfiðleikum sem sköpuðust í framhaldi af efnahagshruninu árið 2008, annars vegar til að skapa vinnu, hafa eitthvað að gera fyrir verktaka og aðra, en ekki síður til að fara í þörf og góð verk til innviðastyrkingar um land allt, ásamt því auðvitað, sem oft er líka meginatriðið, að auka öryggi samgangna.

Þetta er vert að hafa í huga vegna þess að þetta er á þeim árum þegar þáverandi ríkisstjórn, sem tók við 2009, tók í arf halla upp á, ef ég man rétt, 220 eða 230 milljarða kr. sem var svo unninn niður með blóði, svita og tárum, og oft og tíðum með óbragð í munni vegna niðurskurðar og breytinga á kerfinu. En allt var það liður í því að endurreisa efnahagslegt sjálfstæði okkar og vinna að því að gera ríkissjóð hallalausan. Ég hika ekki við að segja: Þessi ríkisstjórn fékk það í arf hvað búið var að gera á síðasta ári og getur svo hreykt sér af því sem gert hefur verið síðan, en vert er að hafa í huga verk fyrri ríkisstjórnar hvað þetta varðar.

Auðvitað blandast nokkrir lottóvinningar inn í það eins og mikil lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu, fjöldi ferðamanna sem streymir til landsins sem aldrei fyrr, þannig að spár greiningardeildar bankanna hafa aldrei náð að rætast; koma ferðamanna hefur verið miklu meiri en nokkur hefur ætlað. Það er líka vert að hafa í huga að síðasta ríkisstjórn fór meðvitað í gang með átak til þess að freista þess að fá fleiri ferðamenn til landsins, meiri gjaldeyristekjur inn í landið. Það hefur heldur betur skilað sér og er einn þáttur í efnahagslegri endurreisn ásamt komu einnar fisktegundar til viðbótar á Íslandsmið, nefnilega makrílsins, og ásamt góðu árferði þar sem mikið hefur fiskast o.s.frv. Þetta ásamt ýmsu öðru er grunnurinn að því sem gert hefur verið í fjármálum landsins sem gerir að verkum að þau eru komin í þá góðu höfn sem raun ber vitni. Það gerir að verkum að væntanlega ætla stjórnarflokkarnir að samþykkja breytingartillögur við samgönguáætlun um að auka við framkvæmdir og fara í ýmis brýn verk.

Ég veit ekki hvar ég ætti helst að byrja í þessari samgönguáætlun. Ég ætla þó að byrja á því að tala um innviðastyrkingu almennt og taka sem dæmi nokkur framkvæmdaverk sem hafa skilað miklum árangri, verk sem ríkisvaldið á að vinna, þ.e. samgöngubætur, og verk sem ýmsir aðilar koma að, einkaaðilar, opinber fyrirtæki og óopinber o.s.frv. Það er eðlilegt að ég taki kannski fyrst það sem ég þekki best, Héðinsfjarðargöng, sem opnuð voru á haustdögum 2010, þá miklu framkvæmd. Það er stórt og mikið verk sem tvísýnt var um á tíma hvað varðar framkvæmdahraða, þ.e. í efnahagshruninu 2008 og 2009, en sem betur fer tókst að leysa það. Hinn erlendi verktaki, sem var í verkinu með íslenskum verktaka, sagði: Við höfum aldrei farið frá hálfkláruðu verki og förum ekki að taka upp á því nú. Þeir vildu klára þrátt fyrir erfiðleika og gengishrun o.s.frv.

Hvað hefur svo gerst í framhaldi af því, virðulegi forseti? Ég get sagt, fyrir minn heimabæ og Fjallabyggð almennt, að þetta skipti sköpum. Margt hefur verið gert í framhaldi af því, af sveitarfélaginu, almennum fyrirtækjum, almenningi á svæðinu og af einkaaðila sem hefur byggt upp glæsilegt hótel og veitingastaði og glæsilega ferðaþjónustu. Bæirnir hafa verið fullir af túristum síðan. Mikil gróska er í ferðaþjónustunni og margt annað kemur í framhaldi af því.

Þetta er kannski skýrasta dæmið um sveitarfélög sem áttu í vanda þar sem vörn hefur verið snúið í sókn. Ég hika ekki við að halda því fram að það er fyrst og fremst vegna tilkomu Héðinsfjarðarganga. Allt þetta gerist í framhaldi af því. Með öðrum orðum: Ég er ekki viss um að það sem hefur verið gert í uppbyggingu á Siglufirði hefði verið gert ef Siglufjörður hefði enn verið endastöð í 90 kílómetra fjarlægð frá þjóðveginum í Skagafirði, eða í 60 kílómetra fjarlægð frá Akureyri að sumri til eða í 120 kílómetra fjarlægð að vetri til. Þetta er kannski eitt skýrasta dæmið.

Ég ætla að nefna annað dæmi af landsbyggðinni sem er gerð Bolungarvíkurganga. Þau hafa algjörlega skipt sköpum, lagður var af stórhættulegur vegur um Óshlíð og Bolungarvíkurgöng tekin á notkun á svipuðum tíma og hefur heldur betur verið gefið í. Þau hafa reynst forsenda fyrir ýmsum framfaramálum á norðanverðum Vestfjörðum og í Bolungarvík og hafa heldur betur skilað sínu. Nákvæmlega það sama mun gerast þegar loforð verður loks efnt um opnun nýrra Norðfjarðarganga á næsta ári, því miður ekki í haust eins og hægt var að gera, þ.e. ef stjórnvöld hefðu tekið til sinna ráða en Vegagerðin lagði það til fyrir einu og hálfu ári að ef aukið fjármagn bærist yrði það verk klárað og göngin opnuð í desember á þessu ári. Þá hefðum við sloppið við hinn erfiða fjallveg sem þar er einum vetri fyrr. Norðfjarðargöng munu líka skipta sköpum.

Ég ætla hiklaust að taka Vaðlaheiðargöng til umfjöllunar líka. Ég tek það skýrt fram, vegna þess að enn er sú mýta í gangi að framkvæmd Vaðlaheiðarganga hafi ýtt öðrum framkvæmdum aftur fyrir sig, jarðgöngum eða öðrum samgöngubótum, að það er rangt, fullkomlega rangt. Það kemur ekki ein króna úr ríkissjóði sem framlag til framkvæmdanna. Framkvæmdin við Vaðlaheiðargöng hefur ekki ýtt neinum öðrum verkefnum aftar. Þau voru vissulega tekin inn með láni frá ríkissjóði eftir að viðræður við lífeyrissjóðina báru ekki árangur, aðallega vegna þess að í viðræðunum kom fram að lífeyrissjóðirnir vildu fá allt of háa vexti miðað við spár um framtíðarvexti og miðað við stöðuna sem þar var. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, svo að það sé rifjað upp, að lífeyrissjóðirnir höguðu sér allt öðruvísi í viðræðum um gerð Vaðlaheiðarganga og fjármögnun þeirra en í viðræðum vegna samgöngubóta sem gera átti á höfuðborgarsvæðinu og snerist um vegi til og frá Reykjavík. Það var leyst með því að ríkissjóður þarf að lána viðbót vegna óvæntra atvika sem hafa komið upp í Vaðlaheiðargöngum; mikill vatnsleki, að stórum hluta til sjóðandi heitt vatn hinum megin í Fnjóskadalnum, ofboðslega mikið kalt vatn o.s.frv. Þetta eru þeir þættir sem eru alltaf óvissir þegar kemur að jarðgangagerð. Þetta kostar peninga og þetta kostar tafir.

En á endanum, svo að það sé sagt, eru það vegfarendur sem fara um göngin sem verða að borga þann aukakostnað sem til fellur út af þeim óvæntu og óheppilegu atvikum sem hafa komið upp. Þeir munu borga veggjald, ekki í 25 ár heldur kannski í 30 ár. En vert er að hafa í huga það sem aldrei er rætt um, að stóraukin umferð um Víkurskarð veldur því að þess má vænta að miklu meira gerist í umferð um Vaðlaheiðargöng þegar þau verða tekin í notkun og líka rétt að hafa í huga að aldrei var gert ráð fyrir, í þeim reiknilíkönum sem voru fyrir það, framkvæmdum á Bakka og aukningu á umferð vegna þeirra, það var aldrei gert, en sem betur eru framkvæmdir á Bakka komnar í gagnið.

Hér er talað um að fara í Dýrafjarðargöng á næsta ári, vonandi verður það gert, og rætt um frekari rannsóknir vegna Seyðisfjarðarganga. Ég held að ég hafi þá að mestu lokið umfjöllun minni um jarðgöng en get ekki látið hjá líða að minna á tillögu mína til þingsályktunar um að Vegagerðinni verði falið að gera rannsóknir á nýjum göngum milli Siglufjarðar og Fljóta sem legði þá af hinn slæma veg um Almenninga og Strákagöng sem voru barn síns tíma og hefði aldrei átt að gera á þeim stað sem þau eru; þarna er lögð fram tillaga um það, en ekki hefur náðst að ræða það. Sú framkvæmd verður eftir 10 ár eða 15 ár eða hver veit hvað.

Almennt að annarri vegagerð, virðulegi forseti. Ég hef talað um nauðsyn þess að leggja meira fé til vegaframkvæmda og alltaf fellur það í hlut þingmanna hvers kjördæmis að fylgja því eftir. Menn eiga að vera sérfræðingar í sínu kjördæmi og á sínu svæði. Andstæðingar kalla það kjördæmapot, það er allt í lagi, þeir mega hafa þau orð sem þeir vilja um það. En við þekkjum svæðið, við eigum fundi með sveitarstjórnarmönnum og íbúum og kunnum að hlusta og færa fram það sem rætt er við okkur. Ég tek sem dæmi ýmsar vegabætur sem þarf að gera í mínu kjördæmi. Hér er peningunum skilað inn til að klára Dettifossveg sem betur fer, en eins og við munum var það í tíð hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem peningar eyrnamerktir Dettifossframkvæmdinni voru teknir í almennt viðhald á vegum landsins með loforði um að peningar kæmu í viðhald næsta ár þar á eftir og rynnu til Dettifossvegar. Það var svikið. Við það var ekki staðið. Það er þess vegna sem nauðsynlegt er að setja þá tillögu inn að klára Dettifossveg eins og hér er gert ráð fyrir. En það verður fjórum til fimm árum seinna en þurft hefði að vera.

Ég get heldur ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að tala um aðra vegi á norðausturhorninu. Á þeim tíma sem ég var að ræða hér, 2009 og 2010, kláraðist vegurinn á norðausturhorninu, vegur til Raufarhafnar og Hófaskarðsleið, mikil samgöngubót, og vegurinn til Vopnafjarðar. Það er eftir kafli á þessu horni sem er aldeilis ófullnægjandi og þarf að gefa betur í, en ekki er nóg að gert að mínu mati. Þá er ég annars vegar að tala um veginn um Brekknaheiði og hins vegar um Norðausturveg um Brekknaheiði frá Langanesvegi til Sóleyjarvalla og síðan aðra kafla sem þar koma á eftir.

Í fyrirspurn sem ég lagði fram hér á Alþingi um þetta mál svarar Vegagerðin mjög vel og dregur fram allar upplýsingar eins og hennar er von og vísa. Það er mjög fróðlegt að hafa það til hliðsjónar þegar menn eru að ræða þessi mál. Það sama á við um veginn um Langanesströnd nr. 85. Þarna kemur fram að það getur kostað tæplega 1 milljarð, annars vegar vegurinn um Brekknaheiði og síðan eru aðrar tölur nefndar varðandi kafla sem enn eru eftir. Það eru mjög vondir malarkaflar á þessari leið frá Þórshöfn og til Vopnafjarðar, ef ég má súmmera það svoleiðis upp. Ég vísa í þetta skjal, virðulegi forseti, sem er þskj. 387, sem svar við þessari fyrirspurn minni og þær myndir og upplýsingar sem þar eru settar fram. Það er nauðsynlegt að hafa þær í huga. En ef ég man rétt er hér í tillögu meiri hlutans eitthvað sett inn til þess að hefja þetta verk, en það er of lítið.

Áfram má halda um þessi vegamál almennt og ég ítreka það sem ég hef áður sagt um nauðsyn þessara framkvæmda. Stundum kastast í kekki milli þingmanna landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar út af framkvæmdaröð og verkefnavali og þá verður að hafa í huga að á norðausturhorninu, sem ég var að tala um, er um að ræða vegi sem ég hygg að séu sambærilegir vegum á höfuðborgarsvæðinu fyrir 50 til 60 árum. Enn eru þar holóttir malarvegir með hæðum og hólum, blindbeygjum og öðru slíku, sem eru algjörlega ófullnægjandi. Það er þess vegna sem við, þingmenn landsbyggðarinnar, þingmenn kjördæmanna, höfum haldið svo fast fram skoðunum okkar og kröfum og bent á nauðsyn þess að leggja meira fé í samgöngumannvirki; höfum rætt um samgönguáætlun til að vinna upp þessa vegi sem líta út eins og vegir hér fyrir 40 til 50 árum. Hér er stigið smáskref í þá átt.

Virðulegi forseti. Ég tel að við þurfum að leita nýrra leiða til gjaldtöku til að fjármagna vegakerfið. Þá hika ég ekki við að segja að það er framtíðin að vera með staðalbúnað í bílum, ákveðna kubba, sem fara svo upp í gervihnött þar sem það er skráð, staður og stund, hvar menn eru á ferð. Þannig má afla meira fjár og leggja af olíugjald og bensíngjald. Ég tek svo undir það sem hefur komið fram í ræðum manna að það er mjög athyglisvert að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur olíu- og bensíngjald sem rennur til vegamála ekki verið hækkað. Það er hluti af því fjársvelti sem (Forseti hringir.) hefur einkennt samgönguáætlanir þessarar ríkisstjórnarinnar hingað til, þær hafa verið áætlanir um nánast ekki neitt. Örlítið er verið að gefa í núna, en betur má ef duga skal.