145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú háttar svo til eftir hádegishlé á þessum ágæta degi að samkvæmt starfsáætlun á þinghaldi að ljúka núna síðdegis. Þar sem okkur hafa ekki verið kynntar neinar áætlanir um neitt annað geng ég út frá því að það gangi eftir og þinghaldi verði þá frestað hér í lok dags og ekki frekari þingfundir boðaðir á þessu kjörtímabili. En ef forseti þingsins hefur einhverjar aðrar fyrirætlanir en þær sem getur um í endurskoðaðri starfsáætlun held ég að það sé mikilvægt að hann kynni þær fyrirætlanir fyrir þeim þingflokkum sem starfa í þinginu. Við hljótum þá að óska eftir því að efnt verði til fundar forseta með þingflokksformönnum og farið yfir hvaða áætlanir séu í gangi af hálfu stjórnarmeirihlutans, ef einhverjar áætlanir eru yfir höfuð uppi eða eitthvað sem hægt er að kynna. Þetta stjórnleysi er orðið með slíkum ólíkindum að það eitt og sér (Forseti hringir.) ætti í raun og veru að kalla á að menn hættu fundahöldum eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)