145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:51]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ágætt að gefa sér tíma af og til til þess að velta fyrir sér áferðinni á störfum Alþingis. Við vitum það að á síðasta kjörtímabili beið virðing Alþingis alvarlega hnekki. Það var ekki síst vegna þess að stjórnarandstaðan sem þá var við lýði gekk svo hart fram, m.a. í fundatæknilegum tæklingum, að þingið beið skaða af því sem stofnun. Nú hefur þetta breyst á þessu kjörtímabili ekki síst vegna þess að stjórnarandstaðan hefur einsett sér að ganga málefnalega fram og gæta að virðingu Alþingis og það hefur skilað sér. En það er ekki að skila sér, virðist vera, í samstarfsvilja þeirra sem fara með völdin innan þessarar stofnunar. Skortur á upplýsingum, samráðsleysi og það að fá ekki samtalið, eins og hér var nefnt áðan, er að skila sér í súrnandi andrúmslofti og er ekki afkastahvetjandi eða til bóta fyrir störf þessarar (Forseti hringir.) háu samkomu sem löggjafarsamkoman er. Þannig að ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og árétta það að auðvitað þarf að setjast niður með þingflokksformönnum og gefa upplýsingar um framhaldið.