145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Áður en lengra er haldið í umfjöllun minni um fjögurra ára samgönguáætlun held ég að rétt sé að árétta þær kröfur sem hér hafa komið fram og óska eftir því við virðulegan forseta að hann hafi eitthvað að segja okkur við lok ræðu minnar um hvenær forseti hyggst hitta þingflokksformenn, það væri sannarlega til þess að greiða fyrir þingstörfum.

Við ræðum fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Þá kynni einhver að spyrja: Bíddu, er árið 2015? Hvað þýðir það þegar verið er að gera áætlun fyrir ár sem er búið? Það er vegna þess að það er skylda í lögum að gera samgönguáætlun til fjögurra ára og núverandi ríkisstjórn hefur ekki komið frá sér þessari áætlun fyrr en allt of seint. Þess vegna erum við í þeirri undarlegu stöðu að ræða nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árið í fyrra, sem er liðið, og fyrir yfirstandandi ár og það er kominn september, svo fyrir árin 2017 og 2018. Þetta er því miður ekki einsdæmi í því hvernig ríkisstjórnin vinnur verkin sín en sannarlega ástæða til að ræða sérstaklega, ekki bara vegna þess að áætlunin er seint fram komin, heldur líka vegna þess að hún er svo ótrúlega metnaðarlaus. Við vitum það og því miður eru um það fréttir nánast vikulega að við horfumst í augu við það að samgöngukerfið á Íslandi er mjög illa vanrækt. Þar eru vanrækslusyndirnar að hrannast upp vegna þess að ekki er verið að sinna eðlilegu viðhaldi á samgöngukerfinu á landinu og nýframkvæmdir eru líka í sögulegu lágmarki.

Framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er skammarlega lágt. Við í minni hlutanum gagnrýnum harðlega þessi lágu framlög til samgöngumála á kjörtímabilinu öllu og þann alvarlega drátt sem hefur orðið á því að afgreiða samgönguáætlun. Við erum að tala um það að þetta niðurdrabbaða og vanrækta vegakerfi á Íslandi er að verða sökudólgur í hörmulegum slysum ferðamanna hverjum á fætur öðrum. Það er óásættanlegt að Ísland skuli ætla að berja sér á brjóst sem vaxandi ferðamannaland að bjóða hingað til sín fólki í stórum stíl og vanrækja svo innviði samfélagsins og vegakerfi að við sem samfélag berum ábyrgð á alvarlegum slysum og jafnvel banaslysum. Það er til skammar. Það er til skammar að ríkt samfélag sem kennir sig við velferð skuli láta þetta gerast.

Við sjáum að þessi framlög til samgöngumála námu á árinu 2008 þegar best lét ríflega 2,5% af vergri landsframleiðslu, en síðan hefur þetta hlutfall haldist í sögulegu lágmarki undanfarin ár í kringum 1,1–1,3%, þannig að auðsjáanlega, ef við skoðum allt annað sem er að gerast í íslensku efnahagslífi og tilefnið til þess að gefa þarna í, er greinilegt að það hefur beinlínis verið setið á samgöngukerfinu, það hefur beinlínis verið svelt, það hefur verið svelt skipulega.

Ef við stöldrum bara við fjölda ferðamanna undanfarin ár þá er það svo að árið 2010 komu 488 þúsund ferðamenn hingað. Á árinu 2014, fjórum árum síðar, voru þeir 997 þúsund. Þeir höfðu tvöfaldast á fjórum árum. Hver er fjöldinn á yfirstandandi ári? Líkur eru á því að við verðum hér með met vegna þess að á fyrstu átta mánuðum ársins erum við með 1,2 milljónir ferðamanna, á fyrstu átta mánuðum ársins, og þá erum við ekki byrjuð einu sinni á september í þeirri tölu. Þessi vanræksla á samgöngukerfinu er mjög alvarleg. Af þeim ástæðum viljum við í minni hlutanum leggja til aukið fé með breytingartillögu til viðhalds á vegakerfinu.

Hvaða ráðgjöf höfum við í þeim efnum þegar við viljum meta það hversu mikið fjármagn þarf í það að halda lágmarksviðhaldi í vegakerfinu? Við töluðum við Vegagerðina. Vegagerðin segir að ráðstafa þurfi 8–9 milljörðum árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu, bara til þess að halda í horfinu, ekki til að bæta neitt, en það þarf 11 milljarða til þess að bæta ástandið og auka öryggið samhliða nauðsynlegu viðhaldi.

Samkvæmt tillögunni sem kemur frá ráðherra er þessi tala í 7 milljörðum fyrir árin 2017 og 2018 og ef þessi tillaga verður samþykkt, eins og ljóst er, þá mun vegakerfið versna en breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir milljarði á hvort ár fyrir sig, þannig að við erum þá að tala um 8 milljarða á 2017 og 8 milljarða á 2018. Við leggjum til hálfan annan milljarð til viðbótar því að við getum ekki leyft okkur sem siðmenntuð þjóð að horfa á vegakerfið drabbast svona niður. Ég vænti þess, virðulegur forseti, að þingflokkar meiri hlutans styðji okkur í þessu. Horfumst í augu við stöðuna. Ef við ætlum að afgreiða samgönguáætlunina þá verðum við að gefa meira í viðhald.

Það er auðvitað alveg stórfurðulegt að standa hér og vera að tala um einhverja peninga þegar þingið er nánast búið. Og hver á þá að borga þá peninga og hver á að taka ákvörðun um það í fjárlögum o.s.frv.? Það er að mínu mati mikilvægt að við sem samfélag, alveg sama hvort við erum sjálfstæðismenn, vinstri græn, píratar eða Björt framtíð, samfylkingarfólk eða framsóknarfólk, þá hljótum við að vera sammála um það að við viljum sýna þessum málaflokki meiri sóma. Eigum við ekki að sammælast um það að setja nægilegt fé í viðhald fyrir árin 2017 og 2018 og gera það saman? Eigum við ekki að gera það? Er ekki full ástæða til, góðar efnislegar röksemdir? Og sannarlega er borð fyrir báru í ríkisrekstrinum til að bæta verulega úr að því er varðar uppbyggingu innviða. Við eigum að gera þetta.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um málið og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir álit minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem ég skrifa undir ásamt fleirum. Í því áliti og almennt í umræðunni langar mig sérstaklega að staldra við stöðuna á höfuðborgarsvæðinu, samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu. Þar þarf að gera gangskör að því að styrkja möguleikana til almenningssamgangna. Almenningssamgöngur þurfa meira á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt upp áætlun um að þróa borgarlínu, sem verður nýtt léttlestarkerfi eða hraðvagnakerfi sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu. Það yrði kerfi sem mundi þjóna komandi kynslóðum, ungu fólki dagsins í dag fyrst og fremst, því að þetta tekur langan tíma í framkvæmd og mundi gera höfuðborgarsvæðið samkeppnisfært við höfuðborgirnar á Norðurlöndum. Ungt fólk horfir til þess hvernig maður kemst um. Ungt fólk vill almenningssamgöngur þar sem vagnarnir koma þétt og það er ódýrt. Það er gagnsætt, gott kerfi með tíðum ferðum. Slíkt kerfi verðum við að byggja upp og styrkja á Íslandi vegna þess að það er stór hluti af daglegu lífi ungs fólks, þ.e. sterkur strætó, léttlestir og hraðvagnakerfi. Þetta vilja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gera, ekki bara Reykjavíkurborg, heldur líka Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Seltjarnarnes o.s.frv. Þetta eigum við líka að styðja. Við eigum að styðja þetta, þ.e. ríkisvaldið, með því að koma með beinum hætti að þeirri uppbyggingu.

Sterkar almenningssamgöngur mundu líka auðvelda það að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu. Þá værum við líka að vinna að því sem er kannski eitt af okkar stærstu málum, ekki bara á þessu ári, heldur næstu tíu ár, 50 ár, 100 ár, og unga fólkið kemur til með að þurfa að hafa meiri áhyggjur af en við, það eru loftslagsmálin. Það er sú staðreynd að við sem byggjum hin svokölluðu velmegunarríki eða iðnríki Vesturlanda berum mesta ábyrgð á því að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Við berum mestu ábyrgðina. Þess vegna berum við líka mestu ábyrgðina á því að draga úr þeirri losun. Hvernig gerum við það? Hvernig gerir Ísland það? Hvaða tækifæri hefur Ísland í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Sannarlega notum við vatnsorku og jarðvarma meira og minna til að framleiða rafmagn, en við notum líka jarðefnaeldsneyti, bensín og olíu, til að reka nánast allt samgöngukerfið. Því verðum við að hætta. Við verðum að leggja okkar af mörkum til samfélags þjóðanna í því, ekki bara að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur líka að vera komin þangað að við bindum meira en við losum, þ.e. að við skilum í raun og veru kolefnishlutlausu Íslandi. Það er markmið sem við eigum að setja okkur. Partur af því að ná slíku markmiði er einmitt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Það gerum við með þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst og með því að stórefla almenningssamgöngur.

Við höfum talað mjög gjarnan um að máli skipti að styðja við jafnrétti samgöngumátanna. Við á höfuðborgarsvæðinu horfumst í augu við það að nánast allt skipulag samgangnanna er byggt utan um einkabíl. Fjöldi bílastæða, hringtorga, jafnvel mislæg gatnamót, eru sett upp með þeim hætti að nánast vonlaust er að vera gangandi, það er eiginlega ekki hægt að vera á hjóli. Ef maður álpast til að fara eitthvað með strætó þá leggur maður líf sitt í hættu við það að komast yfir stór umferðarmannvirki eða stór bílastæði til að komast leiðar sinnar. Þetta er barn síns tíma. Þetta er umferðarskipulag sem þjónar ekki ungu fólki og ekki komandi kynslóðum og ekki þeim sem vilja lifa þroskuðu borgarlífi. Við verðum að snúa frá þessu. Bílastæði eru nefnilega ekki bara svæði sem þjóna því að geyma bílinn einhvers staðar, bílastæði eru uppspretta umferðar. Í sumum metnaðarfullum borgum í Evrópu eru bílar bannaðir í miðborgarkjörnum og til þess að vera í miðborgarkjörnum þarf maður að leggja bílnum sínum í jaðra miðborgarinnar vegna þess að einkabíllinn á ekki heima á slíkum svæðum. Þetta er eitt af því sem við þurfum að horfa til ef við ætlum að eiga höfuðborg sem er samkeppnisfær við aðrar borgir í löndunum í kringum okkur, fyrst og fremst í augum ungs fólks. Það er fyrst og fremst ungt fólk sem eru dómararnir í því hvort okkur tekst vel upp. Það er áskorun fyrir okkur hér á Alþingi að tala ekki bara hvert við annað, að tala ekki bara við þá sem eru reyndir og þroskaðir og vita hvernig á að gera hlutina, heldur tala við og hlusta á þá sem koma á eftir okkur. Því að raddir ungs fólks eru raddir framtíðarinnar og skipta mjög miklu máli í þessum málaflokki, sérstaklega þegar við horfum til loftslagsmarkmiða og losunar gróðurhúsalofttegunda.

Mig langar líka að víkja aðeins að mikilvægi þess að eiga gott samráð við gerð langtímaáætlunar í samgöngum við alla hugsanlega aðila, að tala við sveitarfélögin, atvinnulífið, tala við þá sem í raun og veru þurfa mest að reiða sig á samgöngukerfið, að samgöngukerfið sé ekki eitthvað sem verði til í þröngu samhengi heldur verði til í breiðu samráði.

Forgangsröðun verkefna þyrfti auðvitað að vera þannig í samgöngumálum eins og í miklu fleiri málum að við hér á Alþingi Íslendinga í samstarfi við samgönguráð og sveitarfélögin úti um land höfum ákveðin viðmið um það hvað skiptir mestu máli og þá erum við að horfa á öryggismál, loftslagsmál, byggðasjónarmið, atvinnuuppbyggingu o.s.frv. Þegar komið er síðan að því að forgangsraða verkefnum eiga heimamenn að hafa miklu sterkari rödd. Við höfum þessa leið í gegnum sóknaráætlanir landshlutanna. Það er nákvæmlega þar sem þessir fundir voru haldnir þar sem fólk mætti í góðri trú, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar atvinnulífsins, fulltrúar skólakerfisins o.fl., settist við borðið og sagði: Já, nú er það þannig að afloknu efnahagshruninu á Íslandi ætlum við að breyta um vinnuaðferðir. Við ætlum að breyta um vinnuaðferðir og í staðinn fyrir að horfa á einhvern ráðherra segja okkur hvað standi til, nei, þá ætlum við bara sjálf að segja hvað standi til. Þetta var verkefni sem var til algjörrar fyrirmyndar.

Sóknaráætlanir landshlutanna voru reknar þverpólitískt. Það skipti engu máli úr hvaða flokki fólk kom. Það voru allir opineygir og fullir af trausti í vinnunni um sóknaráætlanir landshlutanna. Við trúðum því öll að þetta væri leiðin til þess að forgangsraða verkefnum út um land. Við byrjuðum á því. Ráðherrar fóru út um land, sveitarstjórnarmenn hittust, atvinnulífið hittist, stofnanir samfélagsins o.s.frv. og alls staðar voru búnir til listar um hvað væri mikilvægast að gera. Alls staðar voru búnir til listar. Þegar núverandi ríkisstjórn komst síðan til valda var þessi vinna sett til hliðar af því að hún var runnin undan rifjum hinnar hræðilegu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þá skulum við alls ekki horfa á þá aðferð heldur nota einhverja aðra, sem reyndar hefur ekki birst enn þá því að þetta var góð aðferð. Hún hefur verið notuð síðan aftur, ekki með nægilega miklum krafti, ekki með nægilega miklu trausti. Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki þá stærð innan í sér að lyfta þessu verkefni sem raunverulegu góðu og mikilvægu lýðræðisverkefni inn í lengri framtíð. En það er þannig sem við eigum að gera. Þetta er verkfærið til að horfa til í miklu ríkari mæli að því er varðar uppbyggingu og þróun samgöngukerfisins.

Það á ekki að vera hlutverk okkar hér á Alþingi að togast á á milli kjördæma um fjármagn í pólitíska vegagerð á einstökum landsvæðum, þannig eigum við ekki að hugsa. Við sem erum þingmenn höfuðborgarsvæðisins erum þingmenn sem viljum Dýrafjarðargöng. Við sem erum á höfuðborgarsvæðinu erum fólk sem vill fækkun einbreiðra brúa á Suðurlandi og tvöföldun Reykjanesbrautar. Við erum þingmenn sem viljum uppbyggingu héraðs- og tengivega á Austurlandi. Við erum þingmenn sem viljum Skógarstrandarveg vegna þess að við erum þingmenn samfélagsins alls. Þannig á hver einasti þingmaður að líta á sitt hlutverk og verkefni þegar kemur að því að byggja upp innviði fyrir samfélagið í heild, fyrir byggðirnar, atvinnulífið, ferðaþjónustuna og fyrir framtíðina. Ég vil því segja það, virðulegi forseti, að mér finnst afar mikilvægt að við gætum öll að því þegar við ræðum um samgöngumál að ræða þau frá þessu víða sjónarhorni.

Hér var fyrr gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem við í minni hluta samgöngunefndar leggjum fram við breytingartillögu meiri hlutans. Það má telja meiri hlutanum til tekna að lagðir eru til, minnir mig, 11,5 milljarðar þegar allt er talið fyrir árin 2017 og 2018 í breytingartillögur um viðbætur við það þingmál sem hæstv. ráðherra leggur fram. Við í minni hlutanum leggjum til viðbætur þarna fyrst og fremst að því er varðar viðhald sem ég nefndi áðan, 1.500 milljónir fyrir árið 2017 og 1.500 fyrir 2018. Ég held að við hljótum að geta sammælst um það mál. Einnig vil ég nefna styrki til almenningssamgangna sem eru vel rökstuddir í nefndarálitinu. Það þarf svo sem ekkert að fjölyrða um mikilvægi almenningssamgangna um allt land.

Við bætum við í kaflanum um vestursvæðið; veg um Skógarströnd, breikkun og endurbætur í Dölum, Örlygshafnarveg um Hvallátur. Við bætum við um Veiðileysuháls. Í kaflanum austursvæði tölum við um að hefja Axarveg í beinu framhaldi af framkvæmdum við Berufjarðarbotn. Við bætum við tengivegi í kaflanum Sameiginlegt og óskipt 200 milljónum fyrir 2017 og 200 milljónum fyrir 2018. Við liðinn breikkun brúa í kaflanum Sameiginlegt og óskipt bætum við 500 milljónum á árinu 2017 og 500 milljónum árið 2018. Það er kannski það staka verkefni, ef hægt er að tala um fækkun einbreiðra brúa sem stakt verkefni, sem eykur með hvað skýrustum hætti umferðaröryggi á Íslandi, sérstaklega fyrir þá sem ekki eru vanir íslenskum vegum, þ.e. fækkun einbreiðra brúa. Ég er ekki með á takteinum fjölda þeirra brúa sem eru einbreiðar á Suðausturlandi, sem er gríðarlega vaxandi ferðamannasvæði. Með því að ferðamönnum fjölgar frá ári til árs eru sífellt fleiri sem sækja út fyrir þessa hefðbundnu kjarna, bæði í tíma og rúmi ef svo má að orði komast, eru lengur á staðnum, eru jafnvel að ferðast um vetur, vor og haust og fara aðrar leiðir en hinar hefðbundnu. Það er eitt af því sem þarf að gera gangskör að með hliðsjón af umferðaröryggissjónarmiðum.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að vera sett á mælendaskrá aftur til að fara betur ofan í einstök mál sem varða einstaka landshluta.