145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum um þetta. Það er raunar ekki langt síðan ég prófaði sjálfa mig svolítið í því að keyra um höfuðborgarsvæðið með það í huga að ég væri ekki staðkunnug, að ég þekkti ekki einstök svæði, segjum bara innan Hafnarfjarðar eða innan Kópavogs o.s.frv. Það stendur kannski aldrei Hafnarfjörður á skilti eða Kópavogur heldur er bara vísað á einhver hverfi og því um líkt. Ég held að það sé veikleiki í merkingum okkar, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land, að við merkjum miðað við ákveðna staðþekkingu. Það er getum við sagt barn síns tíma. Það er í raun og veru mjög eðlilegt að við séum í þessum vanda. Ég vil líka nefna það að við þekkjum það auðvitað mörg hver sem ferðamenn erlendis þegar maður er að nota konuna eða kallinn í mælaborðinu sem segir manni hvar maður á að beygja og hvar maður á að fara út úr hringtorgum til að komast leiðar okkar, þá getur fólk lent í óheppilegum og ófyrirséðum ævintýrum eins og maðurinn sem endaði við Laugarveg á Siglufirði þegar hann ætlaði að fara niður á Laugaveg í Reykjavík.

Allt þetta skiptir miklu máli og upplýsingar og fræðsla til ferðamanna held ég að sé eitthvað sem við þurfum að standa okkur betur í með hliðsjón af því að þetta vegakerfi er ekkert heiglum hent. Eitt er nú að keyra í hálku sem við þurfum öll að glíma við að gera einhvern tímann, en að keyra á mjóum malarvegi eða á vegi sem er svo mjór að hann er eiginlega malarvegur þegar þú ert komin út fyrir eina breidd, það er eitthvað sem maður gerir ekkert á fyrsta degi.

Hv. þingmaður velti fyrir sér af hverju málið hefði ekki verið klárað áður. Það er a.m.k. alveg skýrt að ekki hefur staðið á stjórnarandstöðunni í því að ljúka við samgönguáætlun fyrr. Það hefur einfaldlega ekki verið nægilegur pólitískur vilji eða þrýstingur frá stjórnarmeirihlutanum til þess að gera það fyrr en nú.