145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og ég skil það þá eru þessir flugvellir nú þegar á forræði Isavia og raunar allir flugvellir í landinu. Það sem hefur verið í umræðunni er að skera þarna á milli og Isavia sjái í raun og veru bara um þá sem þjóna millilandaflugi með einhverju móti, en hinir flytjist í raun og veru undir Vegagerðina í viðhaldi og rekstri. Það er eins og ég hef skilið málið a.m.k. með öllum fyrirvörum um það að ég hef ekkert um þetta tiltekna mál á borðinu hjá mér.

Í þeirri umræðu hafa líka verið einhverjar vangaveltur um einkavæðingu o.s.frv., en það kemur ekki inn í nefndarálitið, enda held ég að meiri hlutinn sé ekki þar. En við ræddum töluvert um stöðu mála hjá Isavia, gerðum það á fundum nefndarinnar, ekki bara í tengslum við samgönguáætlun heldur almennt. Þetta er eitt dæmi um ákvarðanir sem voru teknar í rekstri samfélagsins á árum áður og búin voru til einhvers konar fyrirbæri sem lúta svolítið sínum eigin lögmálum. Ég vil nefna þar líka Landsnet, ég held að það sé gott dæmi um slíkt þar sem allt er í raun og veru á forsendum almannavaldsins en án þess að almannavaldið hafi almennilega á því tök. Við höfum rætt í nefndinni að það þurfi kannski að skoða hreinlega lagaumhverfið, samþykktirnar o.s.frv. þannig að starfsemi Isavia rétt eins og Landsnets og annarra slíkra fyrirbæra endurspegli betur lýðræðislegan vilja heldur en gerist endilega alltaf nú um stundir.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það þarf kannski ekki svo mikla peninga í þessi mál sem hún nefnir varðandi merkingar o.s.frv. En það hefur verið vandamál í fjármögnun hjá Samgöngustofu til að mynda að það eru ekki nógu miklir peningar í fræðslu og umferðaröryggismál. Þar þurfum við að gera betur. Við þurfum að gera betur líka í samstarfi við ferðaþjónustuna af því við þurfum að ná (Forseti hringir.) samtali um umferðaröryggi við ferðaþjónustuna og okkar góðu gesti.