145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara því. Nú vona ég að ég muni þetta nokkurn veginn enn þá og verði mér ekki til skammar. Í grófum dráttum er þetta þannig að svokallaðar markaðar tekjur til vegagerðar eru hluti af álögðu bensíngjaldi, hluti af álögðu olíugjaldi og þungaskattur. Það er bæði sérstakt og almennt bensíngjald, sérstakt og almennt olíugjald og þungaskattur. Ríkið fær heilmiklar skatttekjur beint af eldsneytinu á móti vegasjóðnum. En þá er það eftir að ríkið fær allan virðisaukaskatt af eldsneytissölu til umferðar. Ríkið fær alla tolla vegna nýrra bíla sem fluttir eru inn í landið. Ríkið fær bifreiðagjöldin. Ríkið tekur til sín gríðarlega stóran hluta af skatttekjum sem spretta af umferðinni. Það er í mínum huga augljóst mál að það á að færa mörkuðu tekjurnar eða ígildi þeirra í krónum per lítra, krónum per kílómetra, upp í viðmiðanirnar sem við höfum notast við undanfarin ár, færa þær upp til verðlags. Með vaxandi umferð giska ég á að það mundi þýða 8 milljarða í viðbót á næsta ári. Þar erum við komin talsvert á veg. En meðan þörfin er svona mikil og vegna þess að almennar skatttekjur ríkisins af umferð vaxa auðvitað hratt þessi árin verðum við bara að færa eitthvað af þeim í gegnum ríkissjóð inn í vegamálin í viðbót. Því við þurfum meira en 8 milljarða. Við þurfum helst að setja 12 til 15 milljarða nýja inn í þetta á hverju ári næstu árin. Til að fara að byrja að vinna upp slakann. Annars verðum við bara rétt að halda í horfinu. Ég tel að það sé mjög viðráðanlegt. Og hefur verið alveg sérstaklega auðvelt að gera það vegna þess hve eldsneytisverð hefur verið lágt. Nú var OPEC að ná einhverju samkomulagi sem þýðir kannski að það fer eitthvað upp á við, en þá er ekki seinna vænna að drífa í því, að taka að minnsta kosti veruleg skref í því að vinna upp þennan slaka og færa þær tekjur beint yfir í framkvæmdir. Þannig að þetta er nú bara spurning um pólitískan vilja og svona hálftímaverk. Ég hugsa að ég væri hálftíma að ganga frá minnisblaði handa embættismönnum um hvernig við mundum gera þetta.