145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að strandsiglingar eru í gangi, lítill vísir að þeim, á nokkra stærstu staðina. Hvernig kom það nú til? Það var þannig að síðasta ríkisstjórn var að undirbúa útboð á strandsiglingum. Útboðsskilmálarnir voru í þann veginn að verða opinberir og fara út en þá hrukku þeir allt í einu í gang hjá skipafélögunum og boðuðu strandsiglingar. Fyrst annað og svo hitt. En þær eru afar takmarkaðar og allt annað en menn höfðu í huga, þ.e. strandsiglingar sem þjónusta alla ströndina með viðkomu á velflestum höfum þar sem einhver þéttbýli eru á bak við.

Varðandi innanlandsflugið eru að sjálfsögðu ýmsar leiðir færar til þess að reyna að leggja því til meira fé og greiða betur með þeim flugvöllum sem aldrei munu standa undir sér og er engin ástæða til að gera neinar kröfur um slíkt til. Við þekkjum hins vegar reglurnar, Evrópu- og samkeppnisreglurnar, sem við að einhverju leyti verðum að kyngja að við erum bundin af. En auðvitað er sú leið fær, sem ég held að hv. þingmaður þekki vel til, að láta þá Isavia greiða eiganda sínum, ríkinu, arð (Forseti hringir.) og millifæra þann arð í aðra og óhagkvæmari hluta af flugvallarrekstrinum.