145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og yfirgripsmikla ræðu. Mig langar til þess að spyrja hana um almenningssamgöngur, hvort það sé ekki bara komið að því að horfast í augu við hugmyndafræðilega kreppu sem byggist á því að samkeppni lagar ekki allt. Við sjáum fram á það ef við viljum hafa almenningssamgöngur, ef við viljum sterkt samgöngunet þar sem eru góðar flugsamgöngur eða góðar strætisvagnasamgöngur, þá kostar það skattborgara eitthvað. Við sjáum það hvert sem við förum þar sem eru góðar almenningssamgöngur að það er út af því að lagður er metnaður í það af hálfu ríkisins að efla þær. Þetta gerist ekki á samkeppnisgrundvelli einum saman. Við sjáum að flugverð hefur lækkað til og frá landinu einungis á ákveðnum leiðum. Það er mjög mikilvægt að við horfum til þess að verð hefur einungis lækkað til örfárra borga í Evrópu, t.d. ef við fljúgum frá Keflavík til London, það verð hefur lækkað, en á sama tíma er gott sem sama verð ef við skoðum önnur bein flug hjá Icelandair.

Erum við ekki komin í hugmyndafræðilega kreppu sem ákveðnir ríkisstjórnarflokkar neita hreinlega að horfast í augu við þegar kemur að almenningssamgöngum og þetta lífsnauðsynlega net menningar, heilsu og þjónustu sem flugvellirnir eigi að vera hluti af, þannig á flugvallanet í raun og veru að vera? Er ekki kominn tími til þess að við búum til nýjan samfélagssáttmála þegar kemur að samgöngum á Íslandi?