145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég hef fyrst og fremst tvær spurningar til hennar sem lúta báðar í vissum skilningi að breytingartillögum minni hlutans, sem eru okkar tillögur, til viðbótar við þær breytingartillögur meiri hluta sem við styðjum. Annars vegar er það staða viðhalds á vegum, sem hér hefur verið farið vel yfir í dag. Við vitum að í tillögunni sem kom frá ráðherra á sínum tíma var gert ráð fyrir 7 milljörðum kr. á árunum 2017 og 2018. Í breytingartillögu meiri hlutans er lagður til milljarður að auki, þannig að það verði þá 8 milljarðar á hvoru ári fyrir sig.

Á fundum nefndarinnar bentu fulltrúar Vegagerðarinnar á að veita þyrfti 8–9 milljarða kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu. Þá værum við í rauninni ekki að bæta kerfið á neinn hátt. En til þess að við bættum ástand vega og öryggi samhliða nauðsynlegu viðhaldi þyrfti 11 milljarða. Þetta eru náttúrlega okkar helstu sérfræðingar í þessum málum. Með tilvísun til þessara röksemda leggjum við í minni hlutanum því til 1,5 milljarða að auki á árunum 2017 og 2018 til þess að þetta verði þá 9,5 milljarðar á hvoru ári um sig. Þá erum við komin nær því að byrja á að vinna á vanrækslusyndunum, ef svo má að orði komast.

Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þessarar tillögu, því að sannarlega horfum hér við á tillögu sem verður einhverra annarra að uppfylla, kannski okkar, kannski annarra, en það væri þá a.m.k. eitthvað sem við á þinginu núna værum að segja að við ætluðum að gera.