145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:01]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Ég held raunar að ég hafi svarað þessu í ræðu minni. Það er ekki nóg að gert. Ég ætla ekki að taka eins sterkt til orða og hv. þingmaður gerir, en frammistaðan hefur ekki verið nógu góð. Við hefðum þurft að gera miklu meira í þessum málum. Og ætlunin var að það gerðist núna því að auðvitað reiknuðu allir með fullu kjörtímabili. Með auknu svigrúmi og betri stöðu ríkissjóðs var lag að fara í þessa vinnu. Við höfum það tækifæri núna. Við eigum öll að leggjast á eitt. Ég finn ekki annað en að við séum öll sammála um það hér í þessum þingsal, allir sem hafa tekið til máls, við öll sem höfum komið hér upp, að við þurfum að gera betur og við ætlum að gera betur. Ég held að það hljóti að liggja fyrir. Við getum ekki unað við þetta ástand eins og það er, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn eru miklu meira á ferðinni um landið en áður var. Kröfurnar eru orðnar meiri um öryggi á vegum og annað slíkt. Við verðum að standa undir þeim kröfum og við verðum að bæta okkur þarna. Ég get svo sannarlega tekið undir það með þingmanninum.