145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Það sem vantaði í það að mínu mati er af hverju þetta var gert með þessum hætti. Það sem vantar er að á bak við það sem mér finnst vera hraksmánarleg frammistaða er pólitísk forgangsröðun sem ég og minn flokkur höfum verið mjög ósammála á þessu kjörtímabili. Við höfum gagnrýnt það að 80 milljarðar hafi verið settir í hina svokölluðu leiðréttingu. Við höfum gagnrýnt lækkun veiðigjalda. Við höfum gagnrýnt margvíslegar ráðstafanir sem núverandi stjórnarflokkar hafa staðið fyrir og sagt að það væri verið að valda gríðarlegum kostnaði til lengri tíma litið með því að ráðast ekki í umfangsmeiri aðgerðir. Það er það sem við blasir núna. Þegar hlutirnir eru látnir drabbast niður þá leiðir oft miklu meiri kostnaður af því.

Dettifossvegur er svo rakin framkvæmd að klára með tilliti til hagsmuna kjördæmis hv. þingmanns, með tilliti til þess að góður pólitískur stuðningur er við slíkt verkefni. Það er mjög jákvætt þegar kemur að ferðamannastraumi og nýtingu þessa hluta Vatnajökulsþjóðgarðar sem er í kringum Jökulsárgljúfrin. Mér finnst því alveg stórfurðulegt að það skuli ekki hafa verið forgangsmál hjá núverandi meiri hluta að klára þann veg og vera í raun búin með hann í dag. En eins og staðan er er búið að malbika 10 kílómetra af veginum sem er ekki nándar nærri nógu gott. Restin af honum er — það er eins og að fara í ferðalag aftur í tímann um 30 til 40 ár — niðurgrafinn malarvegur sem þúsundir manna fara um á hverjum degi yfir sumartímann.