145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:05]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er spurning með forgangsröðina, það er rétt. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað þannig að ákveðið var að setja fyrst peninga og aukafjármagn í heilbrigðiskerfið. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það var það fyrsta sem var gert. Skuldastaða heimilanna er gjörbreytt. Við lögðum áherslu á að koma heimilunum til hjálpar og staða þeirra er gjörbreytt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Nú er svigrúm til að fara í þessar framkvæmdir. Þannig er röðunin á því.

Þingmaðurinn talar um Dettifossveg sérstaklega. Auðvitað er það þarft og mikilvægt verkefni, en ég, sem þingmaður í kjördæminu, hlusta líka á íbúana. Þar eru íbúar sem þurfa að komast heim til sín á afleitum vegum. Þeir spyrja: Af hverju á að leggja áherslu á þetta fyrst áður en ég kemst heim til mín með góðu móti? Þetta eru allt spurningar sem við þurfum líka að svara.

Ég skil vel vangaveltur þingmannsins varðandi Dettifossveg. Þetta er gríðarlega vinsæll staður. Við þurfum að koma fleiri ferðamönnum inn á þetta horn. Þar eru margar perlur sem fólk ætti að eiga auðvelt með að komast að og skoða. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að klára. Nú er búið að auka fjármagn í það. Ég styð það fullkomlega að við klárum það ásamt öllum hinum verkefnunum.