145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:06]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt að við skulum vera komin það langt að við ræðum fjögurra ára samgönguáætlun við síðari umr. og að jafnframt skuli hafa verið lögð fram 12 ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026. Það er alveg ótrúlega mikilvægt að á hverjum tíma sé í gildi fjögurra ára samgönguáætlun til að byggja vinnu við viðhald og uppbyggingu samgöngukerfisins á. Ég vænti þess að við náum að samþykkja samgönguáætlunina og komumst út úr því ófremdarástandi sem uppi hefur verið þar sem engin samgönguáætlun hefur verið í gildi.

Eins og ég hef sagt áður úr þessum ræðustól skipta samgöngur miklu máli og hafa áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið en jafnframt stórt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál og menningarmál. Bættar samgöngur eru þess vegna áhugamál flestra Íslendinga og við hefðum mörg og kannski flest viljað sjá meira fjármagni varið í samgöngur nú eins og ávallt áður. Ég fagna því sérstaklega þeirri viðbót sem lögð er til í breytingartillögu meiri hluta samgöngunefndar upp á 2 milljarða kr. og kemur til viðbótar þeirri aukningu sem var bætt inn í áætlunina milli ára þegar hún var lögð fram á þessu þingi.

Þrátt fyrir að við séum, og ég þar á meðal, oft og tíðum ósátt við stöðu samgöngumála hér á landi hefur það verið mér mjög hollt að kynnast samgöngum annars staðar á norðlægum slóðum í gegnum samstarf mitt í þingmannanefnd um málefni norðurslóða. Við áttum okkur ekki á því dags daglega hvað við erum í rauninni að fást við snúið umhverfi miðað við þá sem búa t.d. örlítið sunnar í Evrópu, í þéttbýlla landi og löndum sem eru auðveldari yfirferðar. Þetta er stöðugt verkefni sem við þurfum að sinna vel og leggja stærri hluta sameiginlegra sjóða í en við höfum verið að gera síðustu ár.

Ég ætla ekki að halda hér langa tölu, enda hagar mælendaskráin því þannig til að næst á undan mér talaði þingmaður sem kemur úr sama landshluta og ég og fór hún yfir ýmis áherslumál sem snúa sérstaklega að þeim landshluta og því kjördæmi.

Það er staðreynd að fyrir mörg byggðarlög ráða samgöngur miklu um alla möguleika til uppbyggingar og þróunar. Þegar ekki liggur fyrir áætlun, eins og staðreyndin hefur verið síðustu ár, veldur það óhjákvæmilega áhyggjum, óöryggi og óvissu íbúa þeirra byggðarlaga og óvissu í samstarfi milli byggðarlaga. Það getur því leitt til óþarfa óeiningar í samfélaginu meðan skýr stefna í samgöngumálum til lengri tíma er mikilvægur liður í sátt og sameiginlegri framtíðarsýn, þótt við verðum auðvitað aldrei sammála um allt.

Mig langar að koma sérstaklega inn á það að nú sér fyrir endann á malbikun hringvegarins þegar lokið verður við uppbyggingu og malbikun síðasta kafla þjóðvegar 1 í Berufjarðarbotni og breytingartillaga meiri hlutans tryggir í rauninni að því verkefni ljúki fyrr en ætlað var, þ.e. á árinu 2018. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum í Skriðdalsbotni að Öxi á árinu 2018, en þær framkvæmdir eru forsendur þess að hægt verði að hefjast handa við veg um Öxi. Þetta er ein af þeim leiðum sem tengja saman byggðarlög og er ákaflega mikilvæg eins og þær jarðgangaframkvæmdir sem nú standa yfir við Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng og fyrirhugaðar eru við Dýrafjarðargöng. Svo eru ekki síður mikilvægar framkvæmdir sem fara fram innan nærsamfélaga og þörf er fyrir innan þeirra. Langar mig að vitna í nefndarálit meiri hlutans:

„Einnig ber að horfa til vega sem eru mikilvægir fyrir nærsamfélagið á hverjum stað sem eru að jafnaði tengi- og héraðsvegir og mun uppbygging þeirra auka umferðaröryggi. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á vegi í Eyjafirði, Suðurfjarðaveg í Fjarðabyggð, Skagastrandarveg, vegi í uppsveitum Suðurlands og Grindavíkurveg sem er afar fjölfarinn vegur vegna Bláa lónsins og aukinna umsvifa í sjávarútvegi í Grindavík.“

Þarna erum við að tala um vegi þar sem fjöldi fólks fer um til vinnu sinnar dagsdaglega. Á þeim vegi sem ég þekki vel, Suðurfjarðavegi í Fjarðabyggð, fer kannski ekki mesti fjöldi bíla um daglega, en það er vegur þar sem slysatíðni á einstökum vegarkafla er hvað hæst miðað við umferðarþunga. Vegurinn er lagður bundnu slitlagi en án þess að hafa verið uppbyggður miðað við þann umferðarhraða eða þann umferðarþunga sem nú er á honum. Þetta er ekki snjóþung leið, en hins vegar er þarna oft krapi og vegurinn blautur sem getur ekki síður valdið slysahættu. Jafnframt eru á þeirri leið einbreiðar brýr sem væri hægt að fækka og í rauninni losna við með rörum með því að byggja upp og breyta vegum í samræmi við skipulag, bæði í Reyðarfjarðarbotni og Fáskrúðsfjarðarbotni.

Þá langar mig aðeins að koma inn á þá umræðu sem ég held að mjög mikilvægt sé að taka, þ.e. um dreifbýlustu svæðin eins og á Vestfjörðum, norðausturhorninu og Austurlandi, hvernig við eigum að forgangsraða annars vegar ferðamannaleiðum og hins vegar leiðum í dreifðustu byggðunum þar sem hluti íbúa a.m.k. þarf að ferðast eftir þröngum malarvegum, sem jafnvel eru ekki einu sinni heflaðir árlega, til vinnu sinnar á hverjum degi. Hver á forgangsröðunina að vera, á móti því að leggja góða vegi að einstökum ferðamannastöðum vissulega, eins og Dettifossi og Látrabjargi, svo einhver dæmi séu nefnd, þar sem í rauninni enginn á leið um vinnu sinnar vegna, enginn íbúi? Þetta hvort tveggja er mikilvægt. Við þurfum að finna okkur leiðir til að rökstyðja hvernig við forgangsröðum. Sums staðar getum við sameinað, og þá langar mig sérstaklega að nefna leið eins og Borgarfjarðarveg sem er bæði mikill ferðamannavegur en líka mikilvægur vegur og eina leið íbúanna til nærliggjandi staða. Þetta er fámennur staður þar sem þjónusta hefur verið dregin saman og sennilega eini þéttbýlisstaðurinn sem hefur enga leið aðra til næsta þéttbýlisstaðar en um ómalbikaðan fjallveg.

Það væri hægt að halda lengi áfram og fara yfir ýmislegt í áætluninni sem er mikilvægt og annað sem vantar upp á, en ég læt hér staðar numið.