145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að fara aðeins út fyrir efni hv. þm. Elínar Hirst en spyrja hana nokkurs í ljósi þess að hún ritar undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og hefur verið nefndarmaður í þeirri nefnd. Það kom fram við upphaf ræðu hv. þingmanns að hún lítur svo á að mikil þörf sé innan samgöngugeirans fyrir aukin framlög. Það virðist vera það sem stendur upp úr öllum hv. þingmönnum í dag.

Ég velti fyrir mér vinnulaginu, ég veit að hv. þingmanni er annt um að við vöndum vinnu okkar í þinginu. Við höfum verið í þeirri stöðu á þessu kjörtímabili að engin samgönguáætlun hefur verið samþykkt. Nú erum við komin í síðari umr. og það er búið að leggja til verulegar breytingar. Það eru miklar breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til og minni hlutinn lýsir sig fylgjandi þeim og leggur til viðbótartillögur sem segir okkur að Alþingi lítur svo á að þarna þurfi að móta stefnuna upp á nýtt. Við erum að leggja til breytingar til þriggja ára. Síðan er á svipuðum tíma dreift langtímaáætlun fyrir árin 2015–2026 frá ráðherra sem ber í raun og veru ekki því mót að hugsunin frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sé komin inn í þá áætlun. Við erum með nýtt langtímaáætlunarplagg sem er í takt við umræðuna sem fer fram á löggjafarsamkomunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig eigum við eiginlega að fara að því að móta langtímaáætlun í málaflokknum þegar umræðan sem hér fer fram virðist ekki berast inn til ráðuneytisins? Hvernig eigum við að tryggja að langtímaáætlunin haldi þannig að þetta verði ekki í því formi að ýmist séu ekki samþykktar áætlanir og fjárveitingar berist (Forseti hringir.) í gegnum fjárlög eða fjáraukalög eða að gríðarlega mikil breytingavinna fari fram í hvert sinn á samgönguáætlun?