145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:47]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil segja það fyrst að það sem er verið að gera núna með þeirri samgönguáætlun sem hér liggur fyrir er að mínum dómi mjög myndarlegt miðað við þá peninga sem við höfum séð fara til samgöngumála á undanförnum árum sem því miður hafa verið allt of lágar fjárhæðir. Ég er að sjálfsögðu talsmaður þess að við gerum áætlanir fram í tímann en á samt erfitt með að sjá að það að ætla að sjá svo árum skiptir fram í tímann sé nokkrum einasta manni mögulegt. Það kemur af sjálfu sér að eftir því sem maður horfir lengra, þeim mun minna getur maður sagt nákvæmlega um það hvað í raun og veru stendur til samkvæmt áætluninni. Ég tel að það sem sé verið að gera hér í samgöngumálum sé til mikilla bóta og hef engar áhyggjur af því að þeirri góðu stefnu sem hér er fylgt verði ekki fylgt áfram í gegnum stóru áætlunina líka.