145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

kveðjuorð.

[17:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Annað kvöld held ég af landi brott til fyrirlestrahalds sem löngu var ákveðið og í beinu framhaldi sit ég þing Evrópuráðsins sem einn af þremur fulltrúum Alþingis. Þetta er því lokadagur minn hér og komið að því að kveðja. Það geri ég nú eftir rúma tvo áratugi á Alþingi, en í þennan sal steig ég fyrst í byrjun maí árið 1995. Síðan hef ég staðið í nokkur hundruð klukkutíma í þessum ræðustól sem þingmaður, ráðherra og þingflokksformaður. Síðasttalda hlutverkið er ekki veigaminnst því að á herðum þingflokksformanna hvílir hiti og þungi skipulagningar þingstarfanna fyrir hönd sinna þingflokka og þeir eru nánast bundnir þessum sal dag og nótt á meðan þeir gegna því mikilvæga hlutverki. Á kveðjustundu tek ég ofan fyrir þingflokksformönnum allra flokka og að sjálfsögðu forseta Alþingis sem gegnir lykilstöðu í augum okkar sem viljum veg Alþingis mikinn. Núverandi forseta þakka ég sérstaklega.

Margt hefur breyst til góðs á Alþingi frá því ég steig hér fyrst inn fyrir dyr. Þingið sækir þannig smám saman í sig veðrið sem aðhalds- og eftirlitsstofnun með framkvæmdarvaldinu, auk þess að vera löggjafi og fjárveitingavald sem sækist eftir því að vanda vel til verka. Það var ánægjulegt að eiga þátt í því ásamt öðrum nefndarmönnum að þróa störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar inn í framtíðina. Mikið ríður á að þingið leggi áfram rækt við þessa mikilvægu nefnd og sýni hlutverki hennar verðskuldaðan skilning.

Nú þegar ég hverf frá borði þakka ég samþingmönnum og starfsfólki samstarfið og þessari merku og mikilvægu stofnun óska ég alls góðs. Sjálfur stefni ég að því að fá loft undir vængi og horfa á lífið út frá sjónarhornum sem ekki endilega gefast hér inni í þessum sal, að honum þó ólöstuðum. Eflaust mun ég sakna þessa vinnustaðar og ef söknuðurinn verður óbærilegur, hver veit nema ég líti þá við aftur. Ég er ekki í þann veginn að gefa upp hina pólitísku önd mína.

Að lokum, hæstv. forseti, þakka ég fyrir mig og óska ykkur öllum, bæði sem hér verða áfram að störfum eða hverfa til annarra verka, alls góðs. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)