145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er varla hægt að fara að ræða samgöngumál eftir þessa fallegu kveðjustund, en ég skal reyna samt. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Fyrst vil ég segja eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum minni hlutans í dag að þó við styðjum þær viðbætur sem lagðar eru til í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar hefði maður að sjálfsögðu viljað sjá þessi mál þróast með allt öðrum hætti á kjörtímabilinu. Hér hefur ítrekað verið kallað eftir tillögum um samgönguáætlun og að við lykjum við gerð samgönguáætlunar. Það er auðvitað fagnaðarefni að þetta sé loksins að gerast korter í kosningar. En það er umhugsunarefni hvernig við höfum staðið að vinnulaginu í kringum þetta. Ég hlýt að vísa ábyrgð á því alfarið til hæstv. samgöngu- eða innanríkisráðherra þar sem mjög dróst lengi vel að leggja þessa tillögu fyrir þingið þannig að það gæti farið að vinna að málinu.

Ég vil líka segja að það er sláandi sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans þegar framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru skoðuð. Við sjáum hversu hægt gengur að koma þessum framlögum upp þrátt fyrir vaxandi álag á samgöngukerfið. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að hlutfallið hefur haldist í sögulegu lágmarki allt frá hruni. Við erum á árinu 2015 á sama stað og á niðurskurðarárinu 2011 þegar kemur að hlutfalli af vergri landsframleiðslu til samgöngumála þannig að uppgangur í efnahagsmálum sem hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans verður oft tíðrætt um hefur ekki skilað sér í framlögum til þessara mikilvægu innviða og þar ofan á bætist stóraukið álag, ekki síst vegna sívaxandi ferðamannastraums. Því miður hafa orðið alvarleg umferðarslys hjá erlendum ferðamönnum sem m.a. má rekja til ástands vega. Það er líka áhugaverð tafla í nefndaráliti minni hlutans sem sýnir veldisvöxtinn í þeim fjölda ferðamanna sem hingað kemur.

Það er ekki annað hægt en að benda á að þessi málaflokkur hafi verið vanræktur, fjársveltur. Þess vegna vekur það enn meiri áhyggjur þegar hæstv. ráðherra og hv. þingmenn, ekki síst Sjálfstæðisflokksins, tala fyrir aukinni áherslu á einkaframkvæmd í samgöngumálum. Það má spyrja sig hvort þetta fjársvelti sé meðvituð ákvörðun til þess að knýja á um slíkt breytt rekstrarform í samgöngumálum. Það vekur a.m.k. eðlilegar grunsemdir þegar fjársveltið er notað sem sérstök átylla til að setja þessi mál á dagskrá, ekki síst þegar um Sjálfstæðisflokkinn er að ræða. Þetta er áhyggjuefni.

Ég vil líka nefna hvað varðar sýn til framtíðar að samhliða því að við erum að ræða fjögurra ára samgönguáætlun þá erum við með langtímaáætlun, tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026. Nú hef ég ekki náð að lesa hana alla yfir, 200 blaðsíður, en er búin að fara aðeins yfir stóru línurnar og ég fæ ekki séð að áherslurnar, hvorki meiri hluta né minni hluta, skili sér inn í langtímaáætlunina. Ég velti fyrir mér vinnulaginu, í fyrsta lagi að sjálfsögðu að afgreiða ekki eða leggja ekki fram samgönguáætlun. Hún hefur ekki verið lögð fram hér á lögbundnum tíma. Það hefur tekið langan tíma að fjalla um samgönguáætlun. Í öðru lagi er það svo að áður en við afgreiðum skammtímaáætlunina erum við með langtímaáætlun sem er í raun og veru ekki í takti við þær breytingar sem löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið vill gera í skammtímasamgönguáætlun. Í þriðja lagi er það skortur á langtímasýn, hvert við erum að stefna. Það er líka skortur á því. Eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans er hættan sú að við séum að lenda í tilviljanakenndum ákvörðunum. Við höfum lent í tilviljanakenndum ákvörðunum á undanförnum árum þar sem gripið hefur verið inn í og lagst í framkvæmdir í gegnum einfaldar fjárlaga- eða fjáraukalagaákvarðanir í staðinn fyrir að hafa einhverja heildarsýn í samgöngumálum undir. Við erum líka í þeirri stöðu að við erum að vinna með aðrar áætlanir sem hafa bein áhrif á samgönguáætlun, en þær eru ekki unnar saman. Ég nefni sem dæmi orkuskiptaáætlun hæstv. iðnaðarráðherra. Ég nefni líka sem dæmi að við höfum skuldbundið okkur til þess að uppfylla ákveðin markmið í loftslagsmálum, en það liggur engin aðgerðaáætlun fyrir um það hvernig við ætlum að ná því þótt ítrekað hafi eftir henni verið kallað frá hæstv. umhverfisráðherra sem hefur farið með það eins mannsmorð hvernig nákvæmlega eigi að ná þeim markmiðum sem við ætlum okkur að ná í samdrætti gróðurhúsalofttegunda. En til þess að svona áætlanagerð virki þá þarf samgönguáætlun að endurspegla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, orkuskiptaáætlun þarf að endurspegla samgönguáætlun o.s.frv.

Ég geri athugasemd við þennan skort á langtímasýn sem mér finnst alvarlegur. Mér finnst hann alvarlegur. Við þurfum að horfa til þess t.d. hvernig við ætlum að draga úr hlut jarðefnaeldsneytis. Það þarf að stórefla hlut almenningssamgangna ef við ætlum okkur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að setja fram sérstaka hjólreiðaáætlun. Samgöngur eru ekki bara vegaframkvæmdir. Samgöngur eru ekki bara samgöngur eins og þær hafa alltaf verið hugsaðar og afgreiddar á Alþingi. Hér þurfum við að fá langtímasýn. Ég velti því fyrir mér hvort þetta vinnulag allt saman sýni okkur ekki núna þegar við stöndum t.d. frammi fyrir þessu stóra verkefni sem eru loftslagsmálin, að þessi málaflokkur eigi að fara inn í forsætisráðuneytið og forsætisráðuneytið eigi að sjá til þess að allar áætlanir fagráðherra séu samþættar markmiðum okkar í loftslagsmálum. Fyrr en það gerist, á meðan aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er eitthvert leyniplagg í skúffu hjá hæstv. umhverfisráðherra sem kemur ekkert að málefnum samgönguáætlunar eða orkuskiptaáætlunar eða hvað það er sem við erum að ræða, þá verður náttúrlega ekkert úr neinu í þessum málum.

Þetta vinnulag allt saman sýnir okkur að endurskoða þarf stjórnsýsluna í kringum þennan málaflokk. Það þarf að samræma stjórnsýsluna og það þarf að sýna pólitíska forgangsröðun með því að færa mikilvæga málaflokka t.d. tímabundið yfir í forsætisráðuneytið þannig að við náum samræmingu og heildarsýn.

Minni hlutinn bendir á þetta allt í sínu áliti, kannski ekki þetta með forsætisráðuneytið, þar er ég nú bara að tala, en minni hlutinn bendir á að mikilvægt sé að meta samgönguáætlun út frá loftslagsmarkmiðum. Minni hlutinn bendir líka á að það sé tækifæri til þess að auka hluta samtaka sveitarfélaga við forgangsröðun framkvæmda.

Þá komum við að því hvernig við ætlum að vinna undirbúningsvinnuna. Það er auðvitað hluti af þessu að hér eru lagðar fram áætlanir þar sem stendur ekki steinn yfir steini. Það er lögð mikil vinna á hendur og herðar hv. umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þar sem hlusta þarf eftir slíkum sjónarmiðum sem við þurfum auðvitað að fá inn fyrr. Þetta verkefni þarf að vinna í takt við sóknaráætlun landshluta sem var sett í gang á síðasta kjörtímabili þar sem við þurfum að fá fram forgangsröðun landshlutanna á fyrri stigum. Það er auðvitað að hluta til gert af ráðuneytinu að leita eftir þessum sjónarmiðum, en þessi vinna þarf að vera formlegri og hún þarf að vera gagnsærri þannig að þetta liggi fyrir opinberlega og með gagnsæjum hætti í aðdraganda áætlunarinnar en ekki eingöngu í samráði sem er meira innan veggja ráðuneytisins. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, auðvitað er leitað eftir sjónarmiðum, en það er ekki gert í formlegu, opnu og gagnsæju ferli.

Ég vil nefna að minni hlutinn setur nokkrar framkvæmdir sérstaklega á dagskrá. Meiri hlutinn er í nefndaráliti sínu með talsvert margar framkvæmdir sem taldar eru upp í samantekt á breytingartillögum. Þar eru að sjálfsögðu lögð til mörg verðug verkefni. Ég tek undir það sem minni hlutinn leggur til að veita þurfi nú þegar 2,5 milljarða til viðbótar við það fjármagn sem veitt er til viðhalds í samgönguáætlun árlega 2017–2018. Að auki leggur minni hlutinn til milljarð til viðbótar í að bæta öryggi á vegum. Þar er vitnað til fækkunar einbreiðra brúa en líka til eflingar almenningssamgangna og síðan eru lögð til tiltekin verkefni sem færist inn á samgönguáætlun sem nú er til afgreiðslu.

Ég ætla fyrst að nefna verkefnin sem eru úti um land, en hér eru líka önnur verkefni sem koma fram í áliti minni hlutans. Þar er talað um tvöföldun Reykjanesbrautar. Þar er enn fremur talað um breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss, þar er auðvitað gríðarlegt álag og mikið öryggismál að vinna að því. Það er rætt um brúna yfir Jökulsá, Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð, Brekknaheiði og veginn um Langanesströnd, nokkur dæmi.

Það er líka rætt um vegaframkvæmdir við Látrabjarg og Árneshrepp. Ég vildi sérstaklega nefna þessa tvo vegi sem eru í algjörlega óásættanlegu ástandi. Vegurinn norður í Árneshrepp hefur verið þeim annmörkum háður að hann er jafnvel ekki fær í ágústmánuði ef einhverjir vatnavextir verða eða eitthvað slíkt, þá er vegurinn lokaður og ófær. Þegar vegurinn er góður þá þykir venjulegu fólki hann hræðilegur. Það er bara þannig. Síðast þegar ég keyrði þennan veg, ég keyri hann nú talsvert oft, kom ég nánast í taugaáfalli í Norðurfjörð og sagði: Það er aldeilis ástandið á veginum. Þá var sagt: Hann er bara með besta móti núna. Þarna búa auðvitað ekki margir, þetta er fámennasta sveitarfélag á Íslandi, en þetta er eigi að síður spurning um það að við tryggjum að fólk geti búið þarna. Þarna hefur iðulega líka verið beðið lengi eftir snjómokstri. Nemendur í Finnbogastaðaskóla sem hafa t.d. átt að fara suður til Hólmavíkur og taka þátt í tilteknum sameiginlegum verkefnum hafa ekki komist af því að ekki var hægt að opna veginn út af snjó. Þarna er brýnt að fara að ráðast í framkvæmdir. Ég nefni líka Veiðileysuhálsinn og að ljúka þeim úrbótum sem þar hafa lengi verið fyrirhugaðar.

Ég vil einnig nefna veginn við Látrabjarg sem er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður. Þar hafa menn verið að sjá fyrir sér ýmislegt til þess að draga að enn fleiri ferðamenn, en þar er algjörlega óásættanlegt ástand.

Síðan gerir minni hlutinn að umtalsefni veginn á Skógarströnd. Þar á í raun og veru alveg það sama við og í Árneshreppi. Þessir vegir eru ekki í boðlegu standi. Síðan er rætt um átak í héraðs- og tengivegum um land allt.

Frú forseti. Við horfum til þess að sveitarfélögin vinni meira saman, þau nýti sér þá yfirbyggingu sem ég nefndi áðan, landshlutasamtökin, til þess að standa saman að verkefnum. Við erum að gera það í auknum mæli með því að færa yfir verkefni til sveitarfélaganna hvort sem það eru málefni fatlaðra eða annað, það er rætt um málefni aldraðra og hér hefur reglulega verið rætt um að framhaldsskólar eigi að fara yfir til sveitarfélaganna. Það verður ekki gert nema með stórátaki í samgöngumálum og raunar líka fjarskiptamálum. Það er ekki hægt að leggja það á sveitarfélögin að standa saman að svona mikilvægum verkefnum þegar menn komast ekki milli staða. Það sem stendur upp úr þegar maður fer um landið eru þessir tveir málaflokkar. Það sem skiptir mestu máli fyrir t.d. ungt fólk til að velja sér búsetu úti um land eru fjarskiptin, samgöngur og þriggja fasa rafmagn. Nú er það svo að við stýrum því ekkert hvar fólk vill búa. Fólk velur sér búsetu, þannig er bara heimurinn í dag. En vilji menn búa úti um land þá þurfa innviðirnir að vera fyrir hendi. Þeir eru ekki fyrir hendi eins og staðan er núna. Það má segja að með því að vanrækja þessa innviði þá stýri stjórnvöld búsetunni mjög markvisst. Það er auðvitað kúnstugt að horfa upp á ríkisstjórn þessa flokka, hvar af annar þeirra a.m.k. hefur talað mjög mikið fyrir því að efla hinar dreifðu byggðir og það átti að vera eitt af hans höfuðverkefnum í ríkisstjórn, vanrækja með þessum hætti samgöngukerfi landsins sem er í raun og veru undirstaða þess að tryggja hinar dreifðu byggðir. Það er auðvitað tómt mál að tala um það og leggja svo fram áætlun þar sem framlög til samgöngumála eru áfram í sögulegu lágmarki. Svo tala menn um að þetta sé mjög myndarleg aukning sem er verið að leggja til og líta algjörlega fram hjá fjársvelti undanfarinna ára í þeim málum.

Ég ætla ekki að teygja þetta mikið lengur en geri athugasemd við þennan skort á langtímasýn og skort á samþættingu ólíkrar stefnumótunar þar sem samgöngumálin skipta verulegu máli t.d. fyrir loftslagsmarkmiðin. Ég geri síðan að sjálfsögðu athugasemd við það hversu lágt framlögin liggja þrátt fyrir þær viðbætur sem hér eru lagðar til og geri athugasemd við það að áherslurnar eru síðan ekki í neinu samræmi við langtímaáætlunina sem hér liggur inni. Ég lýsi áhyggjum af stöðu þessa málaflokks. Ég held að hann hafi veruleg áhrif og held ekkert um það, ég veit að hann hefur veruleg áhrif á búsetuskilyrði úti um land. Þar hafa ríkisstjórnarflokkarnir tapað mikilvægum tækifærum á sínum árum í Stjórnarráðinu. Það mun taka tíma að vinna upp þessi glötuðu tækifæri. Ég vil segja það að lokum að þeir flokkar sem eins og ég segi tala mest fyrir byggðum landsins ættu kannski að standa sig betur í þessum mikilvægu innviðum áður en þeir segja mikið meira, frú forseti.