145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og fagna því að hún útilokar hvorki einkaframkvæmd né bílastæðagjöld á ferðamannastöðum til þess að kosta úrbætur. Ég vil áfram spyrja um það sem snýr að fjármögnuninni, og ég er sammála hv. þingmanni, auðvitað er þetta grunnkerfi sem í aðalatriðum á að vera í eigu almennings. Spurningin er kannski þessi: Eigum við að leggja áherslu á að fjármagna það með sköttum sem allir borga? Eða eigum við að leita leiða og fylgja þeim þjóðum sem eru núna að flytja gjaldtökuna yfir á þá sem nota kerfið? Þá er ég meðal annars að hugsa um loftslagsmálin sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, hvort það sé ekki hluti af því að auka slík sjónarmið í samgöngupólitíkinni í landinu að menn sem fara um greiði fyrir umferð, þ.e. borgi fyrir það að aka eftir tilteknum vegum. Rafræn kerfi alls konar gera það miklu auðveldara að taka gjöld einfaldlega eftir því hverjir fara um vegi, hvenær og hvernig. Það er hægt að breyta gjaldtöku eftir tímum sólarhrings, eftir tímum árs. Í raun og veru er í fyrirsjáanlegri framtíð hægt að fjármagna allt vegakerfið beinlínis með þjónustugjöldum. Spurningin er: Telur hv. þingmaður að það sé ákjósanlegri leið en að nota hið almenna skattfé til þess að fjármagna vegakerfið?