145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað málið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þetta með svona afgerandi hætti sem mér auðnaðist nú ekki að gera í minni ræðu. Það er auðvitað súrrealískt, og bætist ofan á allt hitt sem ég fór yfir, sem varðaði það að við værum að gera hér áætlanir í tómarúmi þar sem skortur væri á samráði, þar sem við biðum endalaust eftir áætlun, að við séum ofanálag að gera áætlun aftur í tímann. Það er eiginlega algjörlega fráleitt að við séum hér á árinu 2016 í september að samþykkja áætlun fyrir árin 2015–2018. En það segir okkur náttúrlega eitthvað um ferlið. Ég tek það fram ég hef ekki átt sæti í umhverfis- og samgöngunefnd á kjörtímabilinu. Ferlið er ekki nægjanleg gott eins og það er. Það skortir meira gegnsæi í samráðinu sem fram fer fyrr í ferlinu þannig að umræðan komi fyrr upp. Tilfinningin verður sú að hér sé verið að bæta inn aukningu í tilefni kosninga að þessu sinni þar sem verið er að úthluta til tiltekinna verkefna, sem eru þó allt verðug verkefni. En maður fær þá óþægilegu tilfinningu að það byggi ekki á neitt voðalega sterkri langtímahugsun. Þess vegna bendi ég á misræmi milli langtímaáætlunar og þess sem við erum að afgreiða hér. Mér finnst vera skortur á samtali milli þess sem gerist hér og þess sem gerist síðan í ráðuneytinu. Ég er ekki með lausnina á því nema þá helst, og hv. þingmaður þekkir ferlið betur en ég, að við endurskoðum dálítið vinnulagið, hvernig við styrkjum samráðið, hvernig við samræmum þetta betur við aðrar áætlanir. Tilfinningin núna er að við séum að tala í ákveðnu tómarúmi aftur í tímann, frú forseti. Það segir nú allt um hlutverk Alþingis að við séum hér að ræða það sem átti að gerast í fyrra.