145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni en spyr enn hvort það yrði ekki til þess að styrkja áætlunina ef þingmenn meiri hlutans væru með okkur í því að styðja þessar breytingartillögur til enda. Mig langar síðan að spyrja hv. þingmann um hans yfirferð varðandi hjólreiðaáætlanir. Mig langar að nálgast það með þessum hætti: Sjálf hef ég svolítið velt því fyrir mér þegar við erum að leggja áherslu á það, og kannski fyrst og fremst í þéttbýli, að byggja upp í þágu hjólreiða í frístundaskyni, þ.e. að fólk geti hjólað um helgar og sér til skemmtunar o.s.frv., það er eins og önnur nálgun sé á mikilvægi þess að reiðhjólið geti verið raunverulegur valkostur og samgöngumáti. Þetta er mikilvægt út frá hugsuninni um jafnræði samgöngumátanna.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað hann telji mikilvægast að gera til að nálgast það þannig að það að ferðast á hjóli sé raunverulegur valkostur hér á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum verið að gera heilmikið, og þegar ég segi við þá er ég að tala um okkur Reykvíkinga og nágrannasveitarfélögin í þessum efnum. En það er enn svo að þegar um er að ræða framkvæmdir, uppbyggingu eða eitthvað slíkt, þá er sjaldan gert ráð fyrir því að hjólandi fólk þurfi að komast um. Það þekkjum við öll sem reynum að fara um hjólandi.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um hugmynd sem ég hef fengið og það kemur út frá Velo-hjólaleiðapælingunni og það er sú vangavelta að gera Hvalfjörð að slíkri hjólaleið. Hvalfjörður er nánast án bíla eftir Hvalfjarðargöngin og er nánast sléttur að mestu leyti og mjög þægileg hjólaleið og mátulegur rúntur. Ég spyr hvort þar sé ekki sóknarfæri rétt við bæjardyrnar sem við erum ekki að nota fyrir hjólandi ferðamenn.