145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er algerlega ótækt að verið sé að funda án þess að þetta hafi legið fyrir, þ.e. samtalið milli þingflokksformanna, forsætisnefndar og forseta þingsins. Hvernig eigum við að komast fram í hin víðfeðmu kjördæmi til að kynna stefnu okkar og eiga samtal við fólk? Það er farið að kalla eftir viðveru í framhaldsskólum landsins, það er búið að bóka útsendingar bæði fyrir norðan og sunnan og eflaust víðar þar sem þess er óskað að pólitíkusar komi og ræði málin. Það er ekki hægt ef við eigum að vera hér eitthvað fram eftir. Það er jú stjórnarandstaðan sem er inni á þingi en stjórnarflokkarnir hafa farið og byrjað að sinna kosningabaráttu sinni. Framsóknarflokkurinn fékk nú heldur betur kynningu hjá ríkisfjölmiðlinum. Hann getur væntanlega ekki kvartað yfir því þar sem það var bein útsending af öllum stefnumálum þess flokks. (Forseti hringir.) Ég hefði óskað þess að fleiri flokkar hefðu fengið slíka umfjöllun. (Forseti hringir.) En maður veltir fyrir sér: Þorir ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki í kosningabaráttu? Hvað er það sem veldur því að við klárum ekki (Forseti hringir.) þessa dagskrá núna á næstu tveimur dögum og drífum okkur?