145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er engin starfsáætlun í gildi fyrir Alþingi. Engu að síður er boðað til þingfundar og hingað erum við sum mætt. Mér finnst algjörlega óviðunandi að hér sé haldinn þingfundur áður en þingflokksformenn hafa verið boðaðir til fundar um framhaldið. Að mínu mati er það engan veginn nóg að þann fund eigi að halda kl. 12. Ef það er hins vegar vilji hæstv. forseta að halda þeirri tímasetningu finnst mér ekkert annað tækt í stöðunni en að fresta þessum fundi þar til þeim fundi er lokið. Ég veit ekki alveg hvað það er í raun sem við ættum að ræða hér, annað en fundarstjórn forseta. Það er engin starfsáætlun í gildi og þess vegna þarf að ákveða næstu skref áður en við látum okkur detta í hug að hægt sé að halda eðlilegan þingfund. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)