145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega ósammála þeirri túlkun að þetta sé sama dagskrá og var hér fyrir helgi og þess vegna sé ekkert mál að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er engin starfsáætlun í gildi og mánudagar eru fyrir munnlegar fyrirspurnir og svo er búið að bæta inn á eftir venjulegum þingfundi öðrum þingfundi í dag. Þetta er ekki venjulegt og svona er ekki gert nema í sérstöku samráði við þingflokksformenn. Ég er algjörlega ósammála þeirri túlkun forseta að hér sé hægt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er þá nýlunda í mínum huga ef forseti telur starfsáætlun engu máli skipta. Við hin sem erum hér á þingi höfum leyft okkur að taka mark á starfsáætlun og það er alvarlegt að heyra að forseti geri það ekki.