145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:49]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti tekur fullt mark á starfsáætlun. Forseta var það ljóst í upphafi síðustu viku að ekki yrði unnt að standa við þá starfsáætlun sem hafði verið gerð að mati forseta á þeim tíma með vönduðum hætti, þar sem reynt var að taka tillit til þeirra mála sem ætla mætti að yrðu afgreidd á þeim tíma. Forseta þykir það auðvitað mjög miður að ekki skyldi takast að ljúka þingstörfum innan þeirrar starfsáætlunar sem hann hafði á sínum tíma lagt fram og kynnt í forsætisnefnd og fyrir þingflokksformönnum og var sömuleiðis gerð með vitund formanna allra stjórnmálaflokkanna. Það fór hins vegar þannig og forseti mun auðvitað ekki leggja fram starfsáætlun nema að vita þá líka um leið hvaða mál er ætlað að hafa þar undir til að ljúka innan þeirrar starfsáætlunar. Fundirnir í dag eru auðvitað ætlaðir til þess að reyna að þoka þessum málum áfram og forseti greindi frá því að ætlunin væri líka að fram færu samtöl og fundir forustumanna flokkanna að öðru leyti til að reyna að ná utan um þetta mikla verkefni.