145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum megi vera ljóst að það sem er að gerast núna í þingsal er í raun og veru sýndarmennska. Hér er verið að láta eins og við séum að halda þingfund vegna þess að allt sé með kyrrum kjörum og allt eðlilegt þegar staðreyndin er sú að samtölin sem eiga að eiga sér stað eru ekki hafin um hvernig í ósköpunum við ætlum að ljúka þessu þinghaldi. Það er ólýðræðislegt, virðulegi forseti, að halda þingstörfum áfram undir þeim kringumstæðum sem nú eru þegar eru innan við fjórar vikur til kosninga. Við erum að halda kjörnum fulltrúum og frambjóðendum til þings hér í stefnuleysi og dagskrárleysi á meðan það fólk ætti í anda lýðræðisins að vera að tala við kjósendur, tala við almenning í landinu. Í staðinn erum við hér í gíslingu þessarar vitleysu með ekkert plan, enga dagskrá, enga forgangsröðun.

Forseti. Ég hlýt að átelja það að við látum þetta gerast á meðan eðlilegast væri að við fengjum að komast héðan út í kosningabaráttu. Ég velti fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi þar eitthvað til að hafa áhyggjur af.