145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það væri kannski ástæða til að fara yfir það hvort það hafi yfir höfuð einhver starfsáætlun þingsins staðist allt þetta kjörtímabil. Það kann að vera að forseti muni eftir einhverri en þetta er í það minnsta önnur starfsáætlunin fyrir þetta þing sem ekki gengur eftir. Það kann vel að vera rétt hjá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins að stjórnarflokkarnir hafi sagt það og menn mátt vita. Það þýðir nú ekki að það eigi ekki að efna til funda í lýðræðislegum stofnunum landsins þó að stjórnarflokkarnir hafi ákveðið eitthvað heima hjá sér. Ég spyr: Hvar eru formenn stjórnarflokkanna? Hér erum við komin til þings, starfsáætlun runnin út og hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né formaður Framsóknarflokksins á staðnum. Við höfum ítrekað gengið eftir því á fundum formanna þingflokka að það sé eiginlega lágmark að hér sé að minnsta kosti annar þeirra til svara í óundirbúnum fyrirspurnatímum. Það þarf að gera þá lágmarkskröfu að það sé mætt til þings ef stjórnarflokkarnir krefjast þess að það haldi áfram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) En það er hafin kosningabarátta. Þar eru sex framboð að bjóða sig fram sem ekki eiga aðild að þessum sal. (Forseti hringir.) Þess vegna á þingfundum að vera lokið og kosningabarátta hafin, (Forseti hringir.) nema auðvitað að stjórnarflokkarnir séu svona hræddir við kosningabaráttu að þeir treysti sér ekki í hana.