145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Forseti á sjálfur og allra síst persónulega ekki að taka nærri sér þá umræðu sem hér er. En hún er eðlileg, forseti hlýtur að skilja það. Það er eðlilegt að við ræðum þessa stöðu og tölum bara mannamál um það. Ríkisstjórnin var með öllu óstarfhæf alla síðustu viku og jafnvel lengur vegna ástandsins í Framsókn, það var ekki við neinn að tala eða við neinn að semja. Sú vika fór í vaskinn og Alþingi flaut hér áfram í tómarúmi vegna þess að annar stjórnarflokkurinn var í fullkominni upplausn og er væntanlega að mestu leyti enn.

Talandi um starfsáætlun Alþingis. Það er auðvitað að verða til, herra forseti, önnur starfsáætlun þessa dagana. Það er starfsáætlun okkar þingmanna og frambjóðenda í komandi alþingiskosningum og það hlaðast inn á hana atburðir dag frá degi. Árekstrarnir verða þeim mun meiri sem við förum ekki að ná utan um þetta og það fljótt. Þetta snýst ekki lengur í mínum huga um samninga milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þetta snýst um að taka utan um þessa örfáu sólarhringa og þau örfáu mál sem er raunhæft og boðlegt að fái afgreiðslu hérna, þannig að það sé ekki einhver subbuskapur (Forseti hringir.) í vinnubrögðum. Og búið, og þingið heim á fimmtudagskvöld eða svo. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)