145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við það að forseti efni til þingfundar við þessar aðstæður. Í lok síðasta kjörtímabils háttaði til með mjög svipuðum hætti og nú. Þáverandi stjórnarflokkar voru ekki búnir að gera það upp við sig hvaða mál þeir vildu fá afgreidd. Þáverandi þingforseti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, boðaði ekki til þingfunda fyrr en ljóst var af hálfu stjórnarflokkanna hvað þeir vildu fá afgreitt. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti forseta sem standa vill í lappirnar gagnvart framkvæmdarvaldinu og verja löggjafarþingið. Ég hlýt að kalla eftir því að hæstv. forseti ljúki þingferli sínum með því að setja þessum dólgum, forustumönnum stjórnarflokkanna, sem ekki koma hér fram með eðlilegum … (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti gerir athugasemd við orðalag hv. þingmanns.)

Virðulegi forseti. Það er ekkert hægt að kalla menn neitt annað, menn sem ekki virða löggjafarþingið samtals, menn sem búnir eru að lofa samtali og efna það ekki vikum saman. Það er ekki hægt annað en að nota orð sem íslensk tunga á yfir slíka menn. (ÖS: Þingdólgar.) Það eru bara þingdólgar.