145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir það að við klárum þessi verk og drífum þetta af. Það er að vísu svolítið krafan að við vitum þá hvað það er sem við ætlum að klára og drífa af. Ef það er bara dagskráin sem hv. þingmaður vill fá í gegn er því samtali væntanlega lokið. En ég býst fastlega við því að hv. þingmaður mundi kannski vilja ræða við þingflokksformann eða tvo.

Varðandi það að vitað hafi verið í síðustu viku hvernig þetta yrði þá var augljóst snemma í vikunni, og fyrr reyndar, fyrir mjög mörgum dögum, að starfsáætlun mundi ekki halda. Það er engin afsökun, virðulegi forseti, það undirstrikar bara að við ættum að vera löngu komin á það stig að geta rætt saman áður en við höldum þingfundi. Það að eitthvað hafi verið vitað í síðustu viku eða þarsíðustu eru ekki rök fyrir því að allt sé núna í steik hvað varðar starfsáætlun, heldur þvert á móti. Hv. þingmaður fer auðvitað beint í það í ræðu sinni að hér sé málþóf, en við erum að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að þetta eru athugasemdir um fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.) Hún gæti verið betri, við vitum hvernig hún gæti verið betri og það væri ekkert mál að hafa hana betri. Ég skil ekki, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvers vegna þetta þarf alltaf að vera svona erfitt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)