145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:08]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Forseti sagði rétt áðan í þessari umræðu að hann yrði sjálfur að vita hvaða málum ætti að ljúka svo að starfsáætlun yrði lögð fram. Forseti veit nefnilega ekki sjálfur hver starfsáætlunin er. Ætli það sé ekki vegna þess að það hefur ekki verið talað við stjórnarandstöðuna og þinghefðirnar þar með virtar í þeim anda sem ætlast má til miðað við það hvernig þingskapalögin eru. Stjórnarmeirihlutinn er ekki hér að störfum, eins og augljóst er, og þingfundirnir sem hafa verið haldnir síðustu daga eru þar af leiðandi leiktjöld, eins og bent hefur verið á. Auðvitað á að slíta núna fundi eða gera a.m.k. hlé á fundi og setjast niður með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna og setja niður starfsáætlun og ákveða þau mál sem forseti segist sjálfur vera í þoku með (Forseti hringir.) hvort eigi að ljúka. Það er kominn tími til að forseti taki dagskrárvaldið (Forseti hringir.) og slíti fundi og ráði þessum síðustu dögum til lykta eins og forseta sæmir.