145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér kemur þingmaður stjórnarliðsins upp og segir að við séum hérna vegna þess að við séum athyglissjúk, við höfum ekki fengið nógu mikla athygli um helgina. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það sem ég hef þó lært á þessum þremur árum á þingi er að athyglina fær maður ekki undir liðnum um fundarstjórn forseta. [Hlátur í þingsal.] Það er síðasti liðurinn til að fá athyglina. Það sem við erum að benda á — forseti, ég mælist til þess að hv. þingmaður hlusti á það sem við erum að segja hérna — er að við erum að fara út í kosningabaráttu, sumir eru farnir, sumir eru byrjaðir í kosningabaráttu, og það er ekki eðlilegt að stjórnarandstaðan sitji á þingi, í nefndunum og vinni störfin. Hv. þingmaður segir: Klárum bara málin. Hvaða mál eigum við að klára? Eigum við að klára áfengismálið? Er það að fara á dagskrá? (Gripið fram í.) Eigum við að klára málið þar sem átti að sameina Minjastofnun og Þjóðminjasafnið? Við erum að biðja um plan og það er fullkomlega eðlilegt að við biðjum um plan. Hv. þingmaður mundi örugglega ekki reka fyrirtæki sitt nema vera með eitthvert plan.