145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í vor fengum við þær upplýsingar að ástæðan fyrir því að þessi ríkisstjórn yrði að starfa áfram væri sú að hún vildi koma frumvarpi um næstu skref varðandi afnám gjaldeyrishafta í gegnum þingið. Það afgreiddist í síðustu viku. Reyndar var nú yfirleitt enginn stjórnarþingmaður í salnum við 2. umr. þess máls í síðustu viku. En gott og vel, það mál er afgreitt.

Nú þurfum við þá að fá að vita til hvers þessi ríkisstjórn er og hvað hún ætlar að gera. Mér finnst það ábyrgðarhluti af hálfu forseta að halda þingfundum áfram við þessar aðstæður. Við erum að fara í kosningar eftir örfáar vikur. Traust á Alþingi hefur beðið mikinn hnekki og ásýnd stjórnmálanna hefur beðið hnekki. Það er engum sæmandi að halda áfram hér með Alþingi eins og stefnulaust rekald, með formenn stjórnarflokkanna einhvers staðar, guð má vita hvar. Eru menn að fagna niðurstöðu gærdagsins, eða hvað eru menn að gera? Alla vega eru þeir ekki hér, í vinnunni sinni. Þeir sinna ekki vinnunni sinni og forsætisráðherra hefur ekki sinnt því sem hann sagðist ætla að gera í síðustu viku, að tala við stjórnarandstöðuna um þinglokin. Við þær aðstæður á forseti bara að gera eitt, þ.e. að fresta fundi og boða ekki aftur fund fyrr en þessir menn (Forseti hringir.) virða þingið viðlits.