145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

aðildarviðræður við ESB.

[11:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst bara svolítið gaman að fara yfir stöðu mála og athuga hvernig staðan er í Evrópu. Mér finnst eins og hv. þingmaður taki hreinlega ekki eftir því hver framvinda mála hefur verið hjá Evrópusambandinu nýverið. (Gripið fram í.) — Ég er að svara.

Ef þjóðin ákveður að hún vilji halda aðildarviðræðum áfram finnst mér ekkert ólíklegt að menn fari yfir þá vinnu sem nú þegar hefur átt sér stað. Mér finnst það skynsamlegt. En vegna þess að erfiðu kaflarnir voru hreinlega ekki opnaðir held ég að þar þurfi að sjálfsögðu að byrja frá grunni. Menn báru ekki gæfu til að fara í það sem erfiðast var að ræða, nefnilega sjávarútvegsstefnuna og fleira tengt henni. Þar þurfum við líklega að byrja frá grunni. Menn héldu að þetta tæki miklu skemmri tíma en það gerði. En það var bara ekki umboð frá þjóðinni til að fara í þessa vegferð og þess vegna fór sem fór.

Varðandi sæstrenginn er ég þeirrar skoðunar að það sé alltaf brýnt þegar nýjar upplýsingar (Forseti hringir.) berast um möguleikana í stöðunni að skoða það með opnum huga. Að sjálfsögðu gerum við það, annað væri útilokað að mínu mati.