145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

lenging fæðingarorlofs og hækkun greiðslna.

[11:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um málefni sem varða gríðarlega hagsmuni ungra fjölskyldna, þ.e. fæðingarorlofið sem verið hefur til umræðu í þessum fyrirspurnatíma, en ég er meira í almennu línunum varðandi lengingu þess og hækkun á hámarksgreiðslum.

Nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, lýsti því yfir í morgun að fæðingarorlofið væri eitt af aðaláherslumálum flokksins og að stefna Framsóknarflokksins í þeim málum væri skýr. Nú má vera að metnaðarstigið sé eitthvað að aukast, en allt þetta kjörtímabil hefur Framsóknarflokkurinn farið með yfirráð yfir fæðingarorlofinu, hefur verið með það á sinni könnu í ráðuneyti velferðarmála. Framsóknarflokkurinn stóð fyrir því ásamt Sjálfstæðisflokknum að hætta við lengingu á fæðingarorlofinu. Hefði lagabreyting ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fengið að standa væri fæðingarorlofið núna 12 mánuðir. Á móti kom að fæðingarorlofið var hækkað um 20 þús. kr. og fór þá upp í 370 þús. kr. og hefur staðið óhreyft í þrjú ár.

Við sjáum að nú dregur úr fæðingartíðni, sem er alvarlegt mál fyrir Ísland sem hefur státað af einni hæstu fæðingartíðni í Evrópu. Áhrifin eru líka neikvæð fyrir jafnréttið því að feður taka síður fæðingarorlof. Eðli málsins samkvæmt eru það gjarnan mæðurnar sem taka örlítið lengra orlof vegna brjóstagjafar og slíks en feðurnir fara síður í orlofið, sem hefur áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og að sjálfsögðu (Forseti hringir.) rétt feðra barna til þess að móta sín samskipti.

Ég spyr því: Hvað líður hækkun hámarksgreiðslna fæðingarorlofsins og lengingu þess? (Forseti hringir.) Það er ekkert vandamál að fá okkur til þess að taka þátt í því hér fyrir þinglok.