145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

lenging fæðingarorlofs og hækkun greiðslna.

[11:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra heiðarleg svör. Ég er með tvær spurningar. Framsóknarflokkurinn segir við okkur: Þetta er forgangsmál, þetta skiptir okkur miklu máli. Þá langar mig að vita hvaða hugsanir fóru í gegnum höfuð framsóknarmanna og hvað rætt var á þingflokksfundum framsóknarmanna þegar var hætt við lengingu fæðingarorlofsins á sama tíma og verið var að lækka veiðigjöld. Hvaða hagsmunamat fór fram á vegum Framsóknarflokksins? Hvers vegna var Framsóknarflokkurinn tilbúinn í þá forgangsröðun?

Hin spurningin lýtur að frumvarpi okkar í Samfylkingunni sem liggur fyrir um hækkun hámarksgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Ef Framsóknarflokkurinn er í raun og veru svona áfjáður í þessar breytingar, er hann þá ekki tilbúinn þess að mynda meiri hluta með minni hlutanum eða stjórnarandstöðunni í velferðarnefnd? Við erum tilbúin og annað eins hefur nú Framsóknarflokkurinn sýnt síðustu daga. Er ekki bara fínt að afgreiða það frumvarp og sýna þá í verki hver forgangsröðunin er?