145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

neyðarflugbraut.

[11:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að biðja forláts, því að öðrum þræði beini ég fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem ráðherra ferðamála. Málið varðar öryggismál hér á flugvöllunum á suðvesturhorninu sem tengist ferðaþjónustunni nokkuð sterklega. Síðan beini ég fyrirspurn til hennar sem 1. þm. Suðurk. því að málið varðar ekki hvað síst Keflavíkurflugvöll og þær fréttir sem bárust um helgina um að Isavia sé búið að leggja mat á hvað það kostar að opna svokallaða neyðarbraut suður í Keflavík, sem nú verður lokað í Reykjavík, eða er búið að loka ef ég þekki þetta rétt.

Samkvæmt þeim upplýsingum er kostnaður við að opna braut í þessari flugstefnu ekki nema 280 millj. kr. Og eins og þingmenn muna er kaupverðið á landinu, sem ríkissjóður hefur fengið, þegar miklu hærra en sá kostnaður. Það eru því komnar tekjur í ríkissjóð sem auðveldlega geta mætt þessum útgjöldum.

Ég vildi spyrja ráðherrann, bæði út frá sjónarmiðum ferðaþjónustunnar og kröfum um öryggi í flugsamgöngum hér á suðvesturhorninu og líka sem 1. þm. Suðurk., hvort hún telji ekki mikilvægt að ráðist sé í að opna slíka braut í þessari flugstefnu hér á suðvesturhorninu nú þegar henni hefur verið lokað í Reykjavík. Á sínum tíma, þegar atkvæðagreiðslan fór fram í Reykjavík, voru gefin fyrirheit um að brautin í Keflavík yrði opnuð til að hinar tvær fengju að vera hér í Vatnsmýrinni nokkuð lengur.