145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

neyðarflugbraut.

[11:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir þeim fréttum og því kostnaðarmati um helgina sem þingmaður gerði að umtalsefni. Ef mig misminnir ekki þá kostar u.þ.b. 280 millj. kr. að endurbyggja þá flugbraut sem hv. þingmaður nefndi.

Ég þarf ekki langan tíma til að svara þessu. Að sjálfsögðu eigum við að gera þetta til að tryggja flugöryggi, til að tryggja sjúkraflug í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin vegna Reykjavíkurflugvallar, þar sem búið er að loka neyðarbrautinni, eins og menn vita.

Ég get ekki sagt að ég hafi verið alls kostar sammála þeirri ákvörðun, en það breytir ekki því að sú ákvörðun hefur verið tekin, þeirri braut hefur verið lokað. Ég get svarað því fyrir mína parta, bæði sem ráðherra ferðamála og ekki síður sem íbúi í þessu landi, að þrátt fyrir að ég búi ekki fjarri fullkomnasta sjúkrahúsinu á landinu sem íbúi í Reykjanesbæ tel ég það skyldu okkar að tryggja landsmönnum öllum öryggi bæði hvað varðar sjúkraflug og annað.

Við búum í landi þar sem veður geta verið válynd. Ég sá það í morgun í mínum heimabæ þar sem skall á með miklum þrumum og eldingum. Eiginmaður minn horfði á það þegar flugvél frá flugfélaginu WOW air fékk þrjá eldingarblossa í sig fyrir framan stofugluggann hjá okkur. Við getum átt von á öllu og því ber okkur skylda til að tryggja að flugsamgöngur verði sem tryggastar og öruggastar.