145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé nú ekki tilganginn með því að halda þessum þingfundi áfram, sérstaklega ekki í þeim málum sem sett eru á dagskrá hér að loknum fyrirspurnum, sem er samgönguáætlun. Áður en fundi var frestað fyrir hádegi spurði ég eftir formanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Ég skil ekki hvernig hægt er að halda þinghaldi áfram eftir að starfsáætlun þingsins er lokið og formaður annars stjórnarflokksins er ekki einu sinni á staðnum til að ræða um framhaldið.

En hitt er þó að bíta höfuðið af skömminni ef hér á að fara að ræða samgönguáætlun síðar á fundinum og innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, er bara á kosningaferðalagi austur á fjörðum.

Virðulegi forseti. Það getur ekki gengið, þó að það kunni að vera sök sér að taka fyrir þær fyrirspurnir sem hér eru þegar ráðherrann er þó til svara, er viðstaddur. En það er ekki hægt að halda áfram umræðum um samgönguáætlun þegar hæstv. innanríkisráðherra Ólöf Nordal er einhvers staðar úti á landi í erindum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.