145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú bara í löndum sem við viljum ekki bera okkur saman við þar sem stjórnvöld misnota aðstöðu sína í aðdraganda kosninga til að skekkja möguleika flokka á að heyja kosningabaráttu. Við erum að upplifa það núna. Hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né varaformaður hans sinna starfsskyldum sínum, að mæta hér til þings þegar mál þeirra eru á dagskrá og þegar brýn þörf er á að funda um framhald mála, heldur eru þau komin í kosningaferðalag út á land. Á meðan þurfa aðrir flokkar, sem ekki sitja við ríkisstjórnarborðið, að sæta því að sitja hér og ræða við sjálfa sig um málefni ríkisstjórnarinnar.

Ég hlýt að ítreka þær kröfur sem ég setti fram í dag við hæstv. forseta, að hann boði ekki til þingfunda fyrr en ríkisstjórnin gerir það upp við sig hvernig hún vill haga þinghaldinu hér fram undan. Þetta er fáránleg þjónkun við ríkisstjórnarvaldið og er alvarleg aðför að lýðræðinu og jafnræði flokka í aðdraganda kosninga. (HHG: Heyr, heyr.)